Selja íslenskan fisk, skyr og salt í Sviss

Mjólkursamsalan stefnir að því á næstu árum að byggja upp …
Mjólkursamsalan stefnir að því á næstu árum að byggja upp markað í Sviss með sölu á um þrjú þúsund tonnum af skyri.

Fyrirtækið Ice-Co hefur sl. 20 ár byggt upp markað fyrir ferskan fisk til stórmarkaða og heildsala í Sviss og víðar í Evrópu, en það er í eigu Hilmu Sveinsdóttur og svissnesks meðeiganda, Marlisar Umiker. Fyrir rúmu ári hófst síðan markaðssetning á skyri og sjávarsalti á vegum Ice-co. Skyrið hefur farið vel af stað í svissneskum stórmörkuðum og fyrsta saltsendingin er komin í verslanir.

Hilma segir að í raun séu talsverð samlegðaráhrif með því að bjóða upp á nokkrar vörutegundir þó að ólíkar séu. „Kaupendur eru að hluta þeir sömu og við erum í öllum tilvikum að bjóða matvöru frá Íslandi með öðrum orðum að markaðssetja Ísland þó að vissulega sé markaðssetningin ólík.“

Í upphafi snérist starfsemi Ice-Co um að kynna íslenska bleikju og vinna traust viðskiptavina. „Við komum víða að lokuðum dyrum því íslenskir útflytjendur höfðu ekki gott orðspor í þá daga,“ segir Hilma. „Með þrautseigju tókst þó að sýna fram á að við Íslendingar getum unnið faglega og hefur starfsemin breyst mikið og undið upp á sig með árunum.“

Útlit er fyrir að í ár flytji Ice-co út hátt í þúsund tonn af ferskum fiski frá Íslandi eða um 20 tonn á viku að meðaltali. Mest er selt af þorski en vöruúrvalið samanstendur af nánast öllu sem íslenskur sjávarútvegur hefur að bjóða.

Íslenskur hágæðafiskur með svissneskri nákvæmni

Fiskurinn kemur frá mörgum útgerðarfyrirtækjum á Íslandi og er síðan flogið með hann til borga á meginlandi Evrópu. Þaðan taka flutningabílar við og flytja fiskinn á áfangastað. Undanfarið hefur talsvert af fiskinum verið flutt með skipum sem er umhverfisvænni flutningsmáti.

Spurð um viðtökur á svissneska markaðnum segir Hilma: „Þetta er erfiður markaður því Svisslendingar eru mjög kröfuharðir og stunda viðskipti með nákvæmni úrsmíðameistarans. Ef minnstu frávik verða við afhendingu kvarta þeir umsvifalaust og skila vörunni. Ef þú hins vegar skarar fram úr varðandi gæði, þjónustu og afhendingaröryggi eru þeir traustir viðskiptavinir og vissulega er talsverð kaupgeta til staðar hér.

Samkeppnisforskotið liggur í því að bjóða íslenskan hágæðafisk með svissneskri nákvæmni. Þetta er hægt með því að hafa metnaðarfulla samstarfsaðila á Íslandi sem vinna af fagmennsku og eru tilbúnir að aðlagast kröfum markaðarins.“

Hilma segir að reglulega berist þeim fyrirspurnir um hvort þau séu tilbúin að taka að sér að byggja upp markað fyrir íslenska framleiðslu. Núna sé íslenska skyrið komið í hillur stórmarkaða í Sviss og salan hafi farið betur af stað en áætlanir hafi gert ráð fyrir.

Eitt skref í einu

„Hillur hafa oft tæmst og kynningar í stórmörkuðum hafa gengið vel. Við byrjuðum smátt, en erum að fikra okkur áfram og tökum eitt skref í einu. Skyrið er komið í tvær stórmarkaðakeðjur með yfir 140 verslanir og stefnir í fjölgun á næstunni. Það er hins vegar ekkert öruggt í þessu og mikil vinna framundan við kynningar og markaðssetningu.

Staðreyndin er sú að megnið af þeim vörum, sem komast inn í stórmarkaðina, dettur út aftur eftir einhverja mánuði, en það ætlum við ekki að láta gerast með skyrið,“ segir Hilma.

Stefna á 3.000 tonna sölu í Sviss

Mjólkursamsalan stefnir að því á næstu árum að byggja upp markað í Sviss með sölu á um þrjú þúsund tonnum af skyri. Það er framleitt hjá MS á Selfossi og hefur undanfarið verið kynnt og selt í stórverslunum Coop í Sviss. Í fyrsta áfanga er skyrið á boðstólum í um 140 stærstu verslunum fyrirtækisins en stefnt er að því á næstu mánuðum að koma því í 800 verslanir Coop, að sögn Jóns Axels Péturssonar, framkvæmdastjóra markaðs- og sölusviðs MS.

Verkefnið hefur farið vel af stað í Sviss að sögn Jóns Axels, en ásamt kynningum í verslunum hefur skyrið verið auglýst í fríblöðum Coop-verslananna og auglýsingar fyrir skyr verið leiknar í verslunum. Jón Axel segir að gæði vörunnar skipti mestu við kynningarstarfið, en áhugi á Íslandi skemmi ekki fyrir.

Hann bendir á þann árangur sem náðst hefur í Finnlandi en þar hefur verið byggður 3-4 þúsund tonna markaður á rúmlega þremur árum. „Við erum nýbúin að fá mjög mikilvægar viðurkenningar fyrir vörugæði á mjólkurvörusýningunni í Herning í Danmörku og hjá bandaríska vefritinu Huffington Post. Þar var skyr frá MS dæmt sem besta varan í jógúrtflokki vestanhafs. Við ætlum að nota þennan meðbyr í Sviss,“ segir Jón Axel.

Skyr fyrir yfir átta milljarða á næsta ári

Skyr frá MS og erlendum samstarfsfyrirtækjum er nú selt í 8 löndum. Fyrirtækið áformar að teygja þessa starfsemi til fleiri landa á næstu misserum. „Þetta hefur verið arðbær starfsemi og mikilvæg viðbót við íslenska markaðinn. Við gerum ráð fyrir að heildarveltan í beinni sölu MS og sölu okkar samstarfsaðila á Norðurlöndum verði á níunda milljarð króna á næsta ári,“ segir Jón Axel. aij@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert