Sigraði í ljósmyndakeppni Norðurlandaráðs

Ljósmynd Magneu Rutar sem sigraði keppnina.
Ljósmynd Magneu Rutar sem sigraði keppnina.

„Ég er búin að vera að prófa mig áfram í ljósmyndun í svona eitt og hálft ár. En það var nú bara tilviljun að ég heyrði af þessari keppni, einhver, man ekki einu sinni hver, deildi henni á Facebook og ég ákvað að vera með,“ segir Magnea Rut Gunnarsdóttir, en hún sigraði á dögunum ljósmyndakeppni á vegum Norðurlandaráðs.

Keppnin var haldin í tilefni af 25 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og las Magnea sáttmálann yfir til þess að fá hugmyndir. „Mig langaði að ná öllum réttindunum inn í eina mynd. En til þess að koma þeim til skila þurfti ég smáhjálp. Ég fékk að stilla bekkjarsystkinum mínum upp og notaði hendur þeirra til að sýna öll réttindin.“

Hún segir það hafa komið sér mjög á óvart að hún skyldi vinna en um fimmtíu myndir bárust í keppnina. 

Magnea Rut er fimmtán ára gömul og er í tíunda bekk í Húnavallaskóla. Hún er lítið byrjuð að spá í framtíðina en telur líklegt að hún fari á listabraut eða félagsfræðibraut í framhaldsskóla. „Það er svo mikið í boði. En ég ætla alveg örugglega að halda áfram að taka myndir. Ég er alltaf eitthvað að prófa mig áfram.“

Magna Rut er nemandi í Húnavallaskóla.
Magna Rut er nemandi í Húnavallaskóla.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka