Verkfall kæmi í veg fyrir útskrift

Háskólanemar við aðalbyggingu Háskóla Íslands.
Háskólanemar við aðalbyggingu Háskóla Íslands. mbl.is/ Eggert

Verði af verkfalli prófessora frá 1. til 15 desember gæti það komið sérlega illa niður á skiptinemum. Þetta segir skiptinemi við jarðvísindadeild Háskóla Íslands sem mbl.is ræddi við í dag, en hann kýs að koma ekki fram undir nafni. Skiptineminn er frá Kanada og segir hann verkfallið geta tafið framtíðaráætlanir sínar mikið.

„Ég á að útskrifast í ár en til þess að það geti gerst þurfa einingarnar mínar héðan að skila sér til háskólans míns í Kanada í tæka tíð. Verkfallið myndi augljóslega flækja það ferli gríðarlega.“

Hann segir marga þeirra skiptinema sem aðeins eru skráðir í nám í eina önn vera uggandi yfir verkfallinu enda eigi þeir flestir þegar bókað flug til heimalands síns fyrir jólin.

„Ég yfirgef Ísland 13. desember og ef ég get ekki tekið prófin hér neyðist ég til að reyna að taka þau í háskólanum mínum heima. Miðað við það sem mér hefur verið sagt gæti það orðið mikill hausverkur,“ segir skiptineminn.

„Það er átta klukkutíma munur á milli heimabæjar míns og Íslands. Ef ég tek prófin heima þarf það að gerast á sama tíma og hér, sem er þá líklegt að sé um miðja nótt hjá mér.“

Hann segist ekki vilja taka afstöðu í kjaradeilunni en er vongóður um að hún leysist áður en kemur til verkfalls. „Þeir sem líða fyrir verkfallið eru stúdentarnir, hver svo sem niðurstaðan verður í lok dags, bæði þeir innlendu og erlendu. Mér finnst að deiluaðilar eigi að komast að samkomulagi eins fljótt og auðið er.“

Þrátt fyrir að skiptinámið gæti fengið óhentugan endi segist hann hafa notið reynslu sinnar hér á landi mikið. „Þetta er svo fallegt land og fólkið er svo indælt. Ég hef svo sannarlega notið þess að vera hér. Ég er enn vongóður um að deilan leysist og allt fari á besta veg.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert