Vilja gera tímabundinn samning

Félagi tónlistarskólakennara hefur borist erindi frá Tónskóla Sigursveins þess efnis að möguleikar á gerð sérstaks tímabundins samnings verði kannaðir. Markmiðið er að aflétta verkfalli kennara í umræddum skóla. Sagt er frá þessu í frétt á vef Kennarasambands Íslands.

„Erindið var bara að berast og auðvitað skoðum við það,“ segir Sigrún Grendal, formaður félags tónlistarskólakennara, í samtali við mbl.is.

„En það er ljóst að þeim finnst staðan það alvarleg að það þurfi að íhuga eitthvað svona. Þetta veltir líka upp spurningum um þá stöðu að stór hluti af rekstraraðilum tónlistarskóla í landinu hefur ekkert um kjarasamninga tónlistarskólakennara að segja.“

Tónlistarskóli Sigursveins er eins og nánast allir tónlistarskólar í Reykjavík sjálfseignarstofnun. „Nú vakna spurningar um hvort þessir rekstraraðilar eigi ekki að eiga sæti við samningaborðið, hugsanlega í stað Reykjavíkurborgar sem rekur ekki skólana,“ segir Sigrún. „Það er vissulega umhugsunarvert að þeir skólar hafi ekki fulltrúa við samningaborðið þegar kemur að kjörum starfsfólks þar sem næstum því helmingur tónlistarskólanema lærir í Reykjavík.“

Næst verður fundað í kjaradeilu tónlistarskólakennara á mánudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert