Landið okkar tekur örum breytingum sem oft eru stórstígar. Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, hefur verið iðinn við að skrá breytingasögu landsins með ljósmyndum. Hann hefur bent á nauðsyn þess að þessi breytingasaga verði skráð með skipulegum hætti og varðveitt þannig að hún verði aðgengileg öllum sem áhuga hafa á.
Um 30 ár eru síðan Oddur fór að velta því fyrir sér að skrá þyrfti sögu landsins með ljósmyndum. Nokkru seinna hóf hann að taka myndir í þeim tilgangi. Hann átti þá þegar talsvert af ljósmyndum í safni sínu af stöðum sem hægt er að ljósmynda aftur síðar meir og fá þannig samanburð. Morgunblaðið leitaði til Odds og bað um myndir úr myndasafni hans sem sýna breytingar sem orðið hafa á landinu. Fyrir valinu urðu myndir af Gígjökli, skriðjökli úr Eyjafjallajökli, og af sporði Sólheimajökuls úr Mýrdalsjökli.
„Ég hef fyrst og fremst haft í huga að taka myndir með stöðluðum hætti, það er að segja hefðbundnar loftmyndir til kortagerðar,“ sagði Oddur. Hann sagði að flestar þjóðir heims hefðu lengi stundað slíkar myndatökur kerfisbundið og gerðu víða enn. Oddur sagði að á tímabili hefði ríkið látið taka loftmyndir af þéttbýlisstöðum og öðrum landsvæðum með skipulegum hætti. Nokkru fyrir síðustu aldamót var ákveðið að hætta þessu starfi því einkafyrirtæki væru að sinna þessu.
„Það fórst fyrir það sjónarhorn að ríkisvaldið hefur þá skyldu að varðveita söguna. Ekki bara sögu fólksins heldur líka sögu landsins,“ sagði Oddur.
„Ég hef farið í allmargar flugferðir sérstaklega yfir jökla því það hefur verið mitt starf,“ sagði Oddur. Í kringum síðustu aldamót flaug hann yfir alla jökla og grunaða jökla landsins til að ganga úr skugga um hvort þeir væru jöklar eða ekki. Á grundvelli loftljósmyndanna, sem margar voru teknar í þrívídd, taldi hann sig geta skilgreint í öllum tilvikum hvort um jökul væri að ræða eða ekki. Oddur bjó til kort og skráði þar útlínur allra jöklanna samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu á jökli. „Þetta er það kerfisbundnasta sem ég hef komist í varðandi loftmyndatökur,“ sagði Oddur.
Haustið 2000 flaug hann yfir fjöllin beggja vegna Eyjafjarðar og tók myndir af öllum jöklum þar. Þá var komið hlýviðristímabil. Á kuldaskeiði nokkrum áratugum áður höfðu jöklar, t.d. í fjöllunum í kringum Eyjafjörð, verið ósýnilegir vegna fannfergis sem olli því að allt rann saman. „Það er ekki nema eftir snjóléttan vetur og gott sumar sem maður sér þessa smájökla,“ sagði Oddur.
Gígjökull tók gríðarmiklum breytingum frá 1992 til 2011 vegna hlýnunar loftslags og eins eldgossins í Eyjafjallajökli 2010. Skriðjökullinn er mjög brattur og ekki mjög langur. Svo mikil úrkoma fellur á Eyjafjallajökul ofanverðan að hún endurnýjar allan jökulmassann á um 50-100 ára fresti. Öll úrkoma sem féll á jökulinn eftir Kötlugosið 1918 er nú horfin þaðan. Flugvél sem hrapaði í gíginn 1952 skilaði sér fram á sporðinn 1995.
Jökullinn hefur orðið fyrir miklu áfalli í hvert sinn sem Eyjafjallajökull hefur gosið. Þá hefur stór hluti jökulsins bráðnað. Oddur sagði að sennilega tæki það 20-30 ár að bæta upp efnið sem hvarf í gosinu. Hreppstjóri á Ysta-Skála sagði í Þórsmerkurlýsingu 1846 að á árunum á undan hefði jökullinn sigið inn í fjallið. Eyjafjallajökull gaus 1821 og bræddi stóran hluta af jöklinum uppi í gígnum. Við það hætti jökullinn þar að mata skriðjökulinn á meðan gígurinn var að fyllast aftur af jökli. Gígurinn var orðinn fullur af ís og Gígjökull í fyrri stöðu þegar Þorvaldur Thoroddsen kom þar í kringum 1890.
Árið 1992 var Gígjökull búinn að ganga fram frá því um 1970, þegar var kuldatímabil, og gerði það fram til um 1995. Eftir það fór hann að hopa og hafði hopað talsvert 2007. Lónið hafði þá fimmfaldast að stærð á 15 árum. Eldgosið 2010 hafði mikil áhrif þótt það væri ekki stórt eldgos. Oddur spáir því að Gígjökull haldi áfram að minnka því enn vantar mikið á að fylla upp í það sem bráðnaði í gígnum. Á meðan muni jökullinn ekki skríða fram.
Nokkur snögg jökulhlaup komu í gosinu. Þau meira en fylltu lónstæðið á 1-2 dögum af bæði gjósku og jarðefnum sem hlaupin rifu með sér á leið sinni niður vatnsganginn og mynduðu þverhnípt gljúfur í bergið. Aurkeilan næst fjallinu er nú um 50 metrum hærri en vatnsborðið var í lóninu fyrir gosið.