Verkfallsaðgerðir lækna hefjast að nýju á miðnætti og standa yfir í tvo daga. Að þessu sinni eru það læknar hjá aðgerðar- og flæðisviði Landspítalans sem fara í verkfall.
Þjónusta verður skert á Landspítalanum á mánudag og þriðjudag vegna verkfalls lækna og miðvikudag og fimmtudag vegna verkfalls skurðlækna. Aðeins verður sinnt bráðaaðgerðum.
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum eru gerðar 55 til 60 aðgerðir á dag á spítalanum en þessa daga verða þær aðeins 15 til 20.
Verkfallsaðgerðir lækna hafa nú staðið yfir í nærri fjórar vikur. Jafnframt hafa verkfallsaðgerðir skurðlækna staðið yfir í tæpar þrjár vikur.
Næsti fundur í kjaradeilu lækna verður hjá ríkissáttasemjara á þriðjudaginn. Ekki hefur verið boðað til fundar í deilu skurðlækna, en þeir funduðu síðast hjá ríkissáttasemjara á föstudaginn.