Þrátt fyrir að allri bráðaþjónustu og -tilfellum sé sinnt á meðan verkfallsaðgerðir lækna standa yfir, er ekki hægt að fullyrða að sjúklingar muni ekki bera skaða af til lengri tíma litið. Biðtími lengist nú óðum hvar sem niður ber á Landspítalanum, en yfirlæknir öldrunarlækninga á spítalanum segir tímann sérstaklega dýrmætan þeim sem komnir eru á efri ár.
Í dag standa yfir verkfallsaðgerðir á flæðissviði LSH en þar undir fellur m.a. öldrunarþjónusta. Jón Eyjólfur Jónsson yfirlæknir segir aðgerðirnar hafa mætt miklum skilningi og stuðningi hjá eldri notendum heilbrigðisþjónustunnar, sem séu seinþreyttir til erfiðleika og ekki tamt að bera sorgir sínar á torg.
Jón segir verkfallið hafa haft áhrif á alla almenna þjónustu við aldraða.
„Þessu seinkar öllu saman,“ segir hann. „Ef við hugsum okkur t.d. hefðbundinn skjólstæðing sem er orðinn nánast rúmlagður vegna þess að hann er með slitgigt í mjöðm, ekkert lífshættulegt, en gríðarlega mikið verkjastand, sem gerir líf hans óbærilegt og truflar svefn og annað slíkt; svona verkfall eykur biðtíma, þannig að hann þarf að bíða með þannig sjúkdóma og aðgerðina jafnvel vikum eða mánuðum lengur. Það getur kostað ýmislegt, þó það sé ekki beint hægt að tengja það, eða óbeint hægt að tengja það; eins og þeir sem eru svefnlausir eru heilsuveilli, eða -minni, og þannig getur þetta rúllað upp á sig hægt og bítandi,“ segir hann.
Jón segir að hægt hafi á öllu; móttöku sjúklinga, útskriftum, endurhæfingu, auk þess sem starfsemi deildanna sé skert og/eða liggi niðri. „Allt þetta lengir biðtíma, eykur á biðlista og fyrir einstaklinga sem eru orðnir mjög fullorðnir; þeirra tími er dýrmætur,“ segir hann.
Það segir sig sjálft að þó eitthvað teljist ekki aðkallandi í dag, geti það undið upp á sig ef það er látið bíða, að sögn Jóns.
„Einstaklingar sem eru t.d. að bíða eftir mjaðmaskiptum, hnjáskiptum eða einhverju slíku, svo við tökum það sem dæmi því það er algengur kvilli en ekki bráður, þeir einstaklingar koðna niður og leggjast stundum í kör þegar þeir þurfa að bíða lengi. Það er klárlega þannig. Það er ekki lífshættulegt, en það býður upp á frekari sjúkdóma, og svo þegar að aðgerð kemur eru þeir í verri stöðu en þeir voru fyrir. Og þá þurfa þeir lengri endurhæfingu og lengri tíma til að jafna sig. Þetta er mjög bagalegt fyrir í sjálfu sér alla sem lenda í þessu,“ segir Jón.
Jón segir ekki fylgst með andlegri líðan sjúklinga nema fólk hafi samband við sína lækna en verkfall hjá heilbrigðisstéttum auki óöryggi, þá ekki síst hjá þeim sem eiga við langvinn veikindi að glíma.
Hann segir alla þjónustuna líða fyrir verkfallið; greiningu, endurhæfingu og allt þar á milli. Jón segir heilbrigðiskerfið ekki virka nema allir þættir þess séu í lagi. „Keðjan er ekki sterkari en veikasti hlekkurinn,“ segir hann.
Jón segir lækna afskaplega leiða yfir því að stjórnvöld hafi ekki meiri áhuga á því að leysa deiluna en raun ber vitni.