Samtök evrópskra rithöfunda hafa ritað Illuga Gunnarssyni, menntamálaráðherra, bréf þar sem þau lýsa þungum áhyggjum af áformum ríkisstjórnarinnar um að hækka virðisaukaskatt á bókum sem munu hafa hrikaleg áhrif á íslenskan bókamarkað.
Í bréfinu sem Pirjo Hiidenmaa, forseti evrópska rithöfundaráðsins EWC, skrifar undir segir að allsherjarþing ráðsins sem kom saman 2. nóvember lýsi þungum áhyggjum af þeirri fyrirætlan hérlendra stjórnvalda um að hækka virðisaukaskatt á bókum úr 7% í 12%.
Ráðið telur þessa breytingu hafa hrikaleg áhrif á smávaxinn bókamarkaðinn á Íslandi. Hækkunin muni hafa sársaukafull og óafturkræf áhrif á rithöfunda, útgefendur, bóksala og lestrarmenningu þjóðar sem þekkt er á heimsvísu fyrir ríkulega og fjölbreytta bókmenntaarfleifð sína. Hvetur ráðið íslensku ríkisstjórnina til þess að fylgja fordæmi landa eins og Noregs, Bretlands, Írlands og Færeyja þar sem enginn virðisaukaskattur sé lagður á bækur.
Evrópska rithöfundaráðið eru samtök fimmtíu lands- og alþjóðasamtaka rithöfunda og þýðenda skáldverka frá 34 Evrópulöndum, þar á meðal Íslandi. Fulltrúa ráðsins koma fram fyrir hönd fleiri en 160.000 rithöfunda, að því er kemur fram í bréfi ráðsins.