Próf sem aðlagast einstaklingunum

Samræmd próf í Álftamýrarskóla. Rafræn einstaklingsmiðuð próf gætu verið framtíð …
Samræmd próf í Álftamýrarskóla. Rafræn einstaklingsmiðuð próf gætu verið framtíð samræmdra prófa. Eyþór Árnason

Tölvustudd einstaklingsmiðuð próf eru næsta skrefið í þróun samræmdra prófa í grunnskólum á Íslandi. Með slíkum prófum þyrftu allir nemendur ekki að svara öllum sömu spurningunum á prófum heldur fengju þeir spurningar eftir hæfni sinni. Þetta kom fram í máli Arnórs Guðmundssonar, forstöðumanns Námsmatsstofnunar, á kynningarfundi um þróun samræmdra könnunarprófa í dag.

Ný hæfniviðmið sem innleidd hafa verið í 10. bekk hafa þegar gefið fyllri mynd af hæfni nemenda sem þreyta samræmd próf en Arnór segir að tölvustudd próf sem taki mið af hæfni hvers og eins séu rökrétt næsta skref í þróun samræmdra prófa. Þau hafi þegar verið tekin upp í Noregi og horfi menn hér á landi til reynslunnar þar.

Á tölvustuddu einstaklingsmiðuðu prófi væru fyrst lagðar fyrir nemendur almennar spurningar til að greina stöðu þeirra á viðkomandi sviði. Á grundvelli frammistöðu þeirra á þeim spurningum væru þeir leiddir áfram á annað þrep þar sem frekari spurningar sem lagaðar væru að þeirra hæfni væra lagðar fyrir til að ákvarða nánar hæfni nemendanna.

Arnór sagði að próf af þessu tagi þýddu miklar breytingar á því hvernig samræmd próf væru unnin og lögð fyrir. Byggja þyrfti upp spurningabanka og sannreyna að spurningarnar mætu þá hæfni sem lagt er upp með. Hann telur að þetta væri stærsta hindrunin við að koma slíku fyrirkomulagi á hér á landi, frekar en mögulegir tækniörðugleikar.

Námsmatsstofnun er að vinna áætlun um mögulegan kostnað við að taka upp einstaklingsmiðuð próf af þessu tagi en Arnór segir ljóst að það yrði dýrt. Það sé mennta- og menningarmálaráðuneytið sem þurfi skera úr um hvort að hægt sé að ráðast í það.

Hvað varða tæknilegar hindranir benti Arnór á að PISA-könnunin sem fer fram á næsta ári verði rafræn. Þá verði hægt að kortleggja hvernig skólarnir séu í stakk búnir að leggja fyrir rafræn próf.

Einn möguleiki sem rafræn einstaklingsmiðuð próf byðu upp á væri að nemendur gætu jafnvel tekið prófin heima hjá sér þegar þeir óskuðu eftir því og teldu sig tilbúna til þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert