Stjórn Strætó bs. og Reynir Jónsson framkvæmdastjóri hafa komist að samkomulagi um að hann láti af störfum. Staða framkvæmdastjóra verður í framhaldinu auglýst laus til umsóknar. Það er sameiginlegt mat beggja aðila að ekki sé fyrir hendi það traust sem nauðsynlegt er á milli stjórnar og framkvæmdastjóra.
Þetta kemur fram í tölvupósti sem sendur var starfsmönnum Strætó í morgun.
Í bréfinu kemur fram að stjórn Strætó bs. muni nú fara ítarlega yfir stjórnun fyrirtækisins og þær athugasemdir sem komið hafa fram á síðustu vikum. Markmið þeirrar vinnu er að tryggja traust á fyrirtækinu og að stjórnun þess verði hafin yfir allan vafa.
„Strætó hefur á undanförnum árum vaxið sem öflugt þjónustufyritæki sveitarfélaga um allt land undir stjórn Reynis. Þar hafa starfsmenn gengt lykilhlutverki og sýnt að öflugur og samhentur hópur starfsmanna er lykillinn að góðum árangri. Nú er mikilvægt að horfa fram á veginn og stíga í sameiningu þau skref sem þarf til þess að gera Strætó að enn betri vinnustað og öflugra þjónustufyrirtæki.
Við þökkum Reyni fyrir samstarfið undanfarin ár og óskum honum velfarnaðar.
Boðað verður til starfsmannafundar á næstu dögum þar sem farið verður betur yfir málin og áætlanir stjórnarinnar kynntar,“ segir í tölvupóstinum.