Fundi Félags prófessora og samninganefndar ríkisins sem frestað var á föstudag en átti að fara fram í dag hefur á nýjan leik verið frestað. Ráðgert er að hann fari fram um miðjan dag á morgun.
„Fulltrúar ríkisins voru ekki reiðubúnir að mæta til fundar á föstudag og þess vegna var fundinum frestað. Boltinn er hjá viðsemjendum okkar. Við erum langt komnir með hugmyndir að kjarasamningi og báðir aðilar vita hvar hinn stendur. En við bíðum eftir viðbrögðum frá mennta- og fjármálaráðuneytinu,“ sagði Rúnar Vilhjálmsson, formaður Félags prófessora, í samtali við Morgunblaðið í gær.
Hann sagði einnig að samningamönnum hafi vaxið bjartsýni eftir því sem leið á síðustu viku. Því hafi það verið vonbrigði að ekkert hafi orðið úr fundi á föstudag. „Það er ekki gott að lesa í það en við vonumst til þess að hægt verði að stíga markviss skref á morgun. Við vonum enn að ekki komi til verkfalls,“ sagði Rúnar í gær.
Rúnar sagði í samtali við mbl.is eftir hádegið í dag erfitt að segja til um hvers vegna fundinum hafi á nýjan leik verið frestað. „En ég vil vera bjartsýnn og vona að þetta sé að þokast í rétta átt.“
Félag prófessora hefur boðað til verkfalls 1.-15. desember náist samningar ekki.