Birgir nýr landlæknir

Birgir Jakobsson.
Birgir Jakobsson. mbl.is/Kristinn

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur skipað Birgi Jakobsson í embætti landlæknis til fimm ára, frá 1. janúar 2015. Birgir hefur um langt skeið sinnt stjórnunarstörfum við ýmis sjúkrahús í Svíþjóð, síðast sem forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi.

Fimm umsóknir bárust um embætti landlæknis en umsóknarfrestur rann út 31. október síðastliðinn. Sérstök nefnd sem starfar á grundvelli 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu mat hæfni umsækjenda. Niðurstaða hennar var að tveir umsækjendanna væru hæfastir og var Birgir annar þeirra, að því er segir í tilkynningu frá velferðarráðneytinu.

Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu skal landlæknir hafa sérfræðimenntun í læknisfræði, þekkingu á sviði lýðheilsu og víðtæka reynslu eða menntun á sviði stjórnunar.

„Í umsögn hæfnisnefndar um Birgi kemur fram að hann hefur yfirgripsmikla stjórnunarreynslu af sjúkrahúsum í Svíþjóð sem stjórnandi á mismunandi stjórnunarstigum í 24 ár. Sérgrein Birgis er barnalækningar og árið 1988 lauk hann doktorsprófi við Karolinska Institutet. Hann gegndi um árabil yfirlæknisstöðu á barnadeild Huddinge sjúkrahússins í Stokkhólmi, árið 2003 tók hann við starfi sjúkrahússtjóra við Capio St. Görans sjúkrahússins í Stokkhólmi og frá árinu 2007 hefur hann verið forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi en þar er hann nýhættur störfum.

Hæfnisnefndin getur þess í umsögn sinni að Birgir hafi mikla reynslu af breytingastjórnun og hæfileika til að fá fólk til að vinna með sér að breytingum. Hann hafi m.a. verið í fararbroddi við endurskipulagningu og stefnumótun á sjúkrahúsþjónustu í Stokkhólmi og við sameiningu Karolinska og Huddinge sjúkrahúsanna og tekið þátt í umfangsmikilli stefnumótun tengdri þeirri saminingu. Birgir á að baki nær aldarfjórðungs reynslu sem stjórnandi á stórum heilbrigðisstofnunum og hefur náð eftirtektarverðum árangri í þeim störfum sínum. Þá hefur hann verið virkur í fræðasamfélaginu og liggja eftir hann á þriðja tug greina í vísindatímaritum, segir m.a. í umsögn hæfnisnefndarinnar,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Birgir tekur við embætti landlæknis af Geir Gunnlaugssyni sem hefur gegnt því síðastliðinn fimm ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert