Einkavæðingu áfengissölu mun fylgja aukin neysla. Þetta er niðurstaða misserisverkefnis hóps nemenda við félagsvísindabsviði og viðskiptafræðisviði Háskólans á Bifröst en verkefnið þótti framúrskarandi og vann til verðlauna sem besta misserisverkefni nemenda.
Óskar V. Kristjánsson, einn nemendanna sex sem skipuðu hópinn, segir þau hafa leitast við að fjalla um efnið með hlutlausum hætti og fengið mikið hrós fyrir. „Þó svo að fólk innan hópsins hafi mismunandi skoðanir á þessu efni pössuðum við að þær hefðu hvergi áhrif á úrvinnslu verkefnisins.“
Hópurinn tók saman upplýsingar úr fjölbreyttum rannsóknum, hérlendis og erlendis frá auk þess sem tekin voru viðtöl við innlenda sérfræðinga.
„Þessar rannsóknir sýna það að með frjálsri sölu áfengis og auknu aðgengi eykst neysla. Við tókum ekki afstöðu en komum á framfæri þeim niðurstöðum sem koma fram í rannsóknunum og þeim sjónarmiðum sem komu fram í viðtölunum,“ segir Óskar.
Óskar segir eina af niðurstöðum hópsins vera þá að líklegt megi teljast að einkavæðingu áfengissölu hér á landi muni fylgja afnám banna við auglýsingum á áfengum vörum.
„Okkur finnst kannski aðalatriðið vera að almenningur myndi sér skoðun um hvort áfengi eigi að vera almenn neysluvara. Ef að það er vilji þjóðarinnar og Alþingis að það sé almenn neysluvara og fari í verslanir er áfengi komið á samkeppnismarkað og þá er rökrétt að banninu sé aflétt,“ segir Óskar.
Óskar segist vonast til þess að verkefnið muni nýtast í umfjöllun og umræðu um áfengisfrumvarpið. „Það eru margir sem vilja mynda sér skoðun á þessu máli en hafa kannski ekki haft aðgengi að þessum upplýsingum. Okkur fannst þetta bara gott inlegg í umræðuna.“
Misserisverkefnið verður aðgengilegt á heimasíðu Háskólans á Bifröst.