Skrifuðu undir samning

Sigrún Grendal.
Sigrún Grendal. mbl.is/Golli

Tónlistarkennarar skrifuðu undir kjarasamning í nótt. Verkfalli hefur verið aflétt og í dag hefja tónlistarskólar störf eftir um fimm vikna verkfall.

 „Þessu er lokið, það er búið að skrifa undir samning og aflétta verkfalli,“ sagði Sigrún Grendal, formaður Félags tónlistarkennara í samtali við mbl.is í morgun. „Nú geta tónlistarnemendur farið að leita að hljóðfærunum og kennslubókunum.“

 Samninganefndir tónlistarkennara og sveitarfélaganna funduðu í alla nótt og það var ekki fyrr en á sjötta tímanum í morgun að skrifað var undir samninginn. Hann verður nú borinn undir félagsmenn og mun niðurstaða kosninga um hann liggja fyrir hinn 8. desember.

Sigrún segir að tónlistarkennarar megi vel við una við samninginn. „Þetta var brött brekka og erfiðir samningar,“ segir Sigrún. Hún segir að nú verði samningurinn kynntur fyrir félagsmönnum og því sé ekki hægt að upplýsa að svo stöddu um innihald hans. Hún vildi aðeins segja að samningurinn væri til skamms tíma.  „Þetta er einfaldur samningur.“

Sigrún bendir á að tónlistarkennarar hafi setið eftir í launaþróun annarra kennara og að með samningnum telji hún að þeirri óheillaþróun hafi verið snúið við.

„Okkar helsta krafa var að fá launaleiðréttingu. Þegar maður kemur að samningsborðinu í þriðja sinn og það hefur dregið í sundur milli okkar og annarra kennara þá er auðvitað á brattann að sækja. Þetta tók því á, verkfall er erfitt. En ég held að tónlistarkennarar hafi minnt á sig og nú pössum við að halda mönnum við efnið svo að við gleymumst ekki og hrösum aftur niður brekkuna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert