Snjólaust hefur verið á snjóathugunarstöðvum dögum saman. Það er heldur óvenjulegt svo seint í nóvember, en ekki einsdæmi, að sögn Trausta Jónssonar veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Sigurður Þór Guðjónsson, áhugamaður um veður, vakti athygli á því á bloggi sínu (nimbus.blog.is) á sunnudag að þá hefði alls staðar verið snjólaust á snjóathugunarstöðvum nema hvað flekkótt jörð var í Svartárkoti í Bárðardal. Honum þótti þetta snjóleysi svo seint í nóvember vera merkilegt.
Trausti veðurfræðingur sagði í gær að hvergi hefði verið alhvítt á landinu síðan 12. nóvember. Í gær voru snjólausu dagarnir því orðnir 12 í mánuðinum. Hins vegar hafði verið flekkótt á nokkrum stöðum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.