Vilja sérstakar vískiverslanir

Alvöru viskímenn drekka sitt viskí úr belgglösum.
Alvöru viskímenn drekka sitt viskí úr belgglösum. mbl.is/ÞÖK

Samtökin Scotch Whisky hafa sent Alþingi umsögn um frumvarp Vilhjálms Árnasonar sem felur í sér að gera sölu á áfengi frjálsa. Samtökin eru mótfallin því að sterkt áfengi eigi að fela í matvöruverslunum á meðan léttvín og bjór má vera fyrir allra augum.

Eins og nafnið ber með sér berjast samtökin (e. Scotch Whisky Association) fyrir hag viskíframleiðenda og standa 95% þeirra að baki samtökunum.

Í umsögninni er þeirri fyrirætlan fagnað að áfengissala verði gerð frjáls á Íslandi en ýmislegt í frumvarpinu sé hins vegar óboðlegt.

Sér í lagi er það eitt ákvæði frumvarpsins sem fer fyrir brjóstið á samtökunum, en í því er kveðið á um að áfengi sem er að rúmmáli meira en 22% af hreinum vínanda skuli geymt afmarkað frá annarri söluvöru á bak við afgreiðsluborð eða í sérrými innan verslunar.

Þetta segja samtökin að sé mismunun og fyrir henni séu engin rök gefin í frumvarpinu. Fara eigi eins með áfengi hvort sem það telst sterkt áfengi eða léttvín og bjór.

Þá er gagnrýnt að það komi ekki skýrt fram í frumvarpinu hvort sérverslanir með áfengi verði leyfðar, til dæmis sérstakar vískiverslanir með góðu úrvali og sérþekkingu starfsmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert