Flest stéttarfélög og landssambönd innan ASÍ ætla að bíða með frágang launakrafna vegna endurnýjunar kjarasamninga þar til í síðari hluta janúarmánaðar.
Ástæðan er mikil óvissa sem uppi er um áhrif fjárlaganna en ekki síður þar sem viðbúið sé að sveitarfélög muni hækka gjaldskrár töluvert mikið um áramótin, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þetta efni í Morgunblaðinu í dag.
Kjaraviðræður á almenna vinnumarkaðinum hafa farið mjög hægt af stað og eingöngu verið rætt um sérmál. Viðmælendur á vettvangi ASÍ segja mikla óvissutíma framundan. Enn sé mörgum spurningum ósvarað um tillögur ríkisstjórnarinnar við afgreiðslu fjárlaga. Þá séu sveitarfélögin að undirbúa afgreiðslu fjárhagsáætlana, þau hafi tekið á sig meiri launabreytingar í kjarasamningum á árinu en samið var um á almenna vinnumarkaðinum og þurfi væntanlega að finna leiðir til að standa undir þeim kostnaði, auk þess sem stytting bótatíma atvinnulausra muni auka kostnað sveitarfélaganna.