Sá strax að úrið var falsað

Hér má sjá falsaða úrið og umbúðir þess sem maðurinn …
Hér má sjá falsaða úrið og umbúðir þess sem maðurinn keypti í New York. Ljósmynd/Frank Ú. Michelsen

„Það kemur hingað inn ungur maður með úr og vildi fá staðfestingu á því að það væri ekta Rolex-úr. Hann keypti það í ágúst í New York í mjög fínni og vandaðri verslun að hans sögn en um leið og ég fór að skoða það sá ég að það var falsað,“ segir úrsmíðameistarinn Frank Úlfar Michelsen í samtali við mbl.is. Hann segir að það komi reglulega fyrir að fólk sé blekkt og komi í verslun hans á Laugavegi með fölsuð Rolex-úr.

„Hann sagðist hafa farið í mjög fína og vandaða Rolex-verslun og keypt úrið. Mennirnir sem afgreiddu hann voru í flottum fötum, í hvítum skyrtum og með hvíta hanska. Semsagt allur pakkinn myndi maður halda,“ segir Frank.

Maðurinn keypti úrið á 5.500 dollara eða 682 þúsund íslenskra krónur. Að sögn Franks kostar Rolex úr um 1,1 milljón króna á heimsvísu. 

„Þegar ég sé kassann finnst mér strax eitthvað ekki passa. Ég þekki þessa vöru mjög vel en þetta getur blekkt þann sem ekki þekkir til. Þetta var svona fjarskafagurt. Svo þegar ég fæ úrið í hendurnar sé ég að áferðin á stálinu er ekki rétt og úrið var aðeins of létt. Jafnframt á hringurinn meðfram glerinu, sem er kallaður „besel“, að vera úr keramiki en á þessu úri var hann úr málmi,“ segir Frank.

Hann segir að unga manninum hafi brugðið þegar hann sá að úrið var falsað. „Ég fékk leyfi hjá honum til þess að opna úrið og sá að úrverkið var jafnframt kínversk fölsun á Rolex-úrverki. Honum brá alveg rosalega, ég sárvorkenndi honum.“

Frank segir þó að það gerist alltaf öðru hvoru að fólk komi til hans með fölsuð Rolex-úr. „Því miður gerist það að fólk sé blekkt. Svikararnir hugsa auðvitað að það séu litlar sem engar líkur á að útlendingar sem kaupa þessi úr komi aftur og kvarti,“ segir hann.

„En það er yfirleitt þannig að ef að sagan er of góð til að vera sönn er hún yfirleitt ósönn.“

Alvöru Rolex úr er vinstra megin á meðan falsað er …
Alvöru Rolex úr er vinstra megin á meðan falsað er hægra meginn. Ljósmynd/Frank Ú. Michelsen
Frank segir að erfitt sé fyrir þá sem þekkja ekki …
Frank segir að erfitt sé fyrir þá sem þekkja ekki til að sjá muninn á alvöru og fölsuðu. Þetta Rolex úr er falsað. Ljósmynd/Frank Ú. Michelsen
Alvöru Rolex úr.
Alvöru Rolex úr. Ljósmynd/Frank Ú. Michelsen
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert