Hæstiréttur hefur komist að þeirrri niðurstöðu að vændiskaupamál sem höfðuð eru hér á landi skuli vera háð fyrir luktum dyrum. Einn af þremur hæstaréttardómurum skilaði séráliti og taldi ekki efni til að víkja frá þeirri meginreglu að þinghöld skuli haldin í heyranda hljóði.
Með niðurstöðu sinni hefur Hæstiréttur staðfest úrskurð Héraðsdóm Reykjavíkur um sama efni. Í hæstaréttardómnum segir að með hinum kærða úrskurði hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að þinghöld í málinu skyldu vera lokuð til hlífðar brotaþola, sem varnaraðili væri sakaður um að kaupa vændi af. Þá var í úrskurðinum vísað til stöðu seljanda í viðskiptum sem þessum og þess yfirlýsta markmiðs löggjafans að ábyrgðin á viðskiptunum hvíldi eftirleiðis á herðum kaupanda en ekki seljanda.
Hæstiréttur féllst á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að með tilliti til hagsmuna þeirrar konu, sem málið varðar, sé fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 um að þinghöld í málinu verði háð fyrir luktum dyrum til hlífðar henni.
Hæstaréttardómarinn Guðrún Erlendsdóttir skilaði séráliti sem stangast á við niðurstöðu þeirra Helga I. Jónssonar og Benedikts Bogasonar. Guðrún vísar til þess að í greinargerð með frumvarpi sem gerði kaup á vændi refsiverð komi fram að það sé hlutverk löggjafans að sporna við sölu á kynlífi enda ekki ásættanlegt að líta á mannslíkamann sem söluvöru. Gengið hafi verið út frá því að ábyrgðin á viðskiptunum hvíli á herðum kaupandans en ekki seljandans.
Þá segir Guðrún: „Tilgangurinn með framangreindu ákvæði er að sporna við sölu á kynlífi. Þeim tilgangi verður að mínu mati frekar náð með því að halda þinghöld í slíkum málum fyrir opnum tjöldum heldur en að halda þau fyrir luktum dyrum. Meginregla íslensks réttarfars er að þinghöld séu háð í heyranda hljóði, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og verða ríkar ástæður að vera fyrir hendi til að víkja frá henni. Í máli þessu þykja ekki efni til að víkja frá þessari meginreglu og tel ég því að þinghöld í málinu skuli haldin í heyranda hljóði.“