Sökum skorts á rannsóknarheimildum og takmarkaðs mannafla eru möguleikar lögreglunnar á Íslandi til þess að fyrirbyggja hryðjuverk ekki þeir sömu og annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í mati ríkislögreglustjóra á skipulagðri glæpastarfsemi og hættu á hryðjuverkum frá því í fyrra.
Í greinargerðinni, sem ber titilinn „Mat ríkislögreglustjóra á skipulagðri glæpastarfsemi og hættu á hryðjuverkum“, kemur fram að hættustig hér á landi vegna hryðjuverka hafi verið metið lágt í júlímánuði 2013. Það mat byggðist á því að ekki lægju fyrir ákveðnar upplýsingar af neinu tagi um að verið væri að skipuleggja eða undirbúa hryðjuverkaaðgerðir gegn skotmörkum eða viðburðum hérlendis.
Sú athugasemd var þó gerð við hættumatið að lögreglan hér á landi hefði ekki sömu forvirku rannsóknarheimildirnar og yfirvöld annars staðar á Norðurlöndunum og hefði því ekki sömu möguleika á að fyrirbyggja hryðjuverk. Lögreglan hefði því takmarkaðar upplýsingar um mögulega ógn og óvissuþáttur í matinu væri því meiri en hjá nágrannaþjóðunum.
Ef leggja ætti mat á getu til að fremja hryðjuverk á Íslandi telur greiningardeild ríkislögreglustjóra að eggvopn, skotvopn svo sem haglabyssur eða rifflar og heimatilbúnar sprengjur séu þau vopn sem líklegast yrðu notuð. Greiningardeild taldi að geta til að fremja og skipuleggja flókin hryðjuverk sem krefjast mikils undirbúnings og samstarfs margra aðila hér á landi sé takmörkuð og að ekki sé fyrir hendi geta til að framkvæma hryðjuverk með notkun gereyðingarvopna, þ.e. efna-, sýkla-, geisla- og kjarnorkuvopna á Íslandi.
Engu að síður kemur fram í hættumatinu að aukinn fjöldi ferðamanna, skortur á fjármagni til lögreglunnar, skortur á tækjabúnaði, mannafla og þjálfun séu allt þættir sem ekki séu til þess fallnir að styrkja hryðjuverkavarnir á Íslandi.
Ísland og íslenskir hagsmunir gætu orðið fyrir alvarlegum skaða ef hérlendis færi fram undirbúningur að hryðjuverki í öðru landi eða rekja mætti árásir til þess að íslensk stjórnvöld hefðu ekki sinnt alþjóðlegum skuldbindingum um aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi. Ógn af hryðjuverkastarfsemi feli einnig í sér að einstaklingar eða hópar styðji hryðjuverkastarfsemi erlendis með fjáröflun, útvegun ferðaskilríkja o.fl.
Í hættumati ríkislögreglustjóra kemur einnig fram að á Íslandi sem annars staðar sé sá möguleiki fyrir hendi að einstaklingar fyllist þvílíku hatri á samfélaginu eða tilteknum hópum innan þess að þeir reynist tilbúnir til að fremja óhæfuverk í nafni tiltekinnar hugmyndafræði eða trúarbragða. Vitað er að oft er í slíkum tilvikum um að ræða einstaklinga sem gengið hafa í gegnum ákveðið „ferli“ (gjarnan nefnt „radicalization“ á ensku) og að internetið er nýtt til að ná til þeirra og koma á framfæri við þá hatursáróðri. Þessi hætta er augljóslega til staðar óháð því hvar viðkomandi er staddur í heiminum.
Þá er sá möguleiki nefndur að einstaklingur gerist sekur um voðaverk án þess þó að það sé unnið af pólitískum hvötum eða í nafni tiltekinnar hugmyndafræði sem gjarnan er eitt skilgreiningaratriða um hryðjuverk. Ljóst er að hætta á slíkum verknuðum sé jafnan til staðar.