Þessar virkjanir færu í nýtingarflokk

Þrjár virkjanirnar eru við Þjórsá.
Þrjár virkjanirnar eru við Þjórsá. mbl.is/RAX

Í breytingatillögu Jóns Gunnarssonar, formanns atvinnuveganefndar, segir að átta virkjanir skuli færðar í nýtingarflokk. Sjö virkjanir bætast þar við Hvammsvirkjun sem boðað var að skyldi fara í nýtingarflokk; Hágöngulón I og II, Skrokkölduvirkjun, Hólmsá við Atley, Hagavatnsvirkjun, Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun.

Hvammsvirkjun, Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun eru við Þjórsá, Hvammsvirkjun þeirra efst.

Jón Gunnarsson lagði fyrir hönd meirihlutans í atvinnuveganefnd fram breytingatillögu í nefndinni í morgun við þingsályktunartillögu um að Hvammsvirkjun fari í nýtingarflokk. Gefinn var viku umsagnarfrestur. Breytingartillagan verður svo rædd samhliða 2. umræðu um þingsályktunartillöguna. 

Lilja Rafney Magnúsdóttir, fulltrúi VG í atvinnuveganefnd og varaformaður nefndarinnar, segir breytingatillöguna fela í sér vantraust á verkefnisstjórn um þriðja áfanga rammaáætlunar.

Ígildi vantraustsyfirlýsingar

„Við mótmælum harðlega þessum vinnubrögðum og teljum að það sé verið að lýsa vantrausti á verkefnastjórn og fara út fyrir lagaramma um vernd og nýtingu landsvæða.“ 

„Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaherra, óskaði eftir því að verkefnastjórnin tæki sérstaklega til skoðunar þessa átta kosti og skilaði tillögum um þá sem fyrst. Það var mikil pressa á verkefnastjórn að skila þeim tillögum. Hún taldi sig eingöngu hafa næg gögn til þess að meta Hvammsvirkjun þannig að hún gæti farið í nýtingarflokk en taldi sig ekki hafa nægileg gögn til að styðja faglega niðurstöður eða tillögur um aðra kosti sem lagðir voru til. Það hefði enda ekki gefist nægur undirbúningur til að faghópar gætu hafið þá rannsókn,“ segir Lilja Rafney.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert