Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, segir misskilnings gæta í viðbrögðum við breytingatillögu hans og meirihluta nefndarinnar um að sjö virkjanir skuli fara ásamt Hvammsvirkjun í nýtingarflokk. Jón lagði tillöguna fram í morgun. Hann segir hana ekkert hafa með ákvörðun um að virkja að gera.
Eins og mbl.is hefur sagt frá er um að ræða Hvammsvirkjun, Hágöngulón I og II, Skrokkölduvirkjun, Hólmsá við Atley, Hagavatnsvirkjun, Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun.
Þrjár virkjanirnar eru í Þjórsá; Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun.
Jón segir aðspurður það liggja fyrir í áætlun Landsvirkjunar að hefjast skuli fyrst handa við Hvammsvirkjun, sem sé efst í Þjórsá, og láta reyna á mótvægisaðgerðir gagnvart laxastofninum í Þjórsá.
Ferlið getur tekið nokkur ár
Spurður hvenær áformað sé að hefja uppbyggingu umræddra virkjana segir Jón að borið hafi á misskilningi í umræðunni.
„Það er ríkjandi misskilningur varðandi rammaáætlun. Það að setja virkjanir í nýtingarflokk hefur ekkert með þá ákvörðun að gera að þar verði virkjað. Þegar virkjanakostur fer í nýtingarflokk á eftir að fara í allt umhverfismat þeirra framkvæmda sem tilheyra hverri virkjun. Þannig að það er mikil vinna framundan. Umhverfismat getur tekið langan tíma, jafnvel nokkur ár,“ segir Jón Gunnarsson.