Fyrir nokkrum dögum var tveimur konum sem störfuðu í útibúi Landsbankans í Ólafsvík sagt upp störfum. Mannauðsstjóri Landsbankans, Baldur G. Jónsson, fór vestur í Ólafsvík og í lok starfsdags voru konurnar kallaðar á hans fund, þeim sagt upp og gert að yfirgefa bankaútibúið þegar í stað. Önnur konan hefur starfað í bankanum í áratugi, fyrst í sparisjóðnum og eftir að Landsbankinn tók hann yfir, í Landsbankanum. Hin konan hefur starfað þar eitthvað skemur.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins finnst ýmsum bæjarbúum í Ólafsvík að aðferðin sem beitt var við uppsagnirnar sé harkaleg og í raun „óboðleg og fruntaleg,“ eins og einn viðmælandi orðaði það. Morgunblaðið spurði Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúa Landsbankans, hvers vegna uppsagnirnar hefðu verið með þessum hætti:
„Mannauðsstjóri Landsbankans, Baldur G. Jónsson, fór vestur í Ólafsvík og sagði þessum konum upp, í samráði við útibússtjórann í Ólafsvík, það er rétt. En hann segir að það hafi verið alveg eins staðið að þessum uppsögnum og alltaf er gert. Það er alltaf þannig, þegar Landsbankinn hefur frumkvæði að starfslokum, að sá eða sú sem sagt er upp störfum hættir samstundis. Við skiljum það vitanlega að fólki sé brugðið. Uppsagnir eru aldrei neitt gleðiefni,“ sagði Kristján.