Fjöldi fjárfesta og verktaka hefur sýnt áhuga á að taka þátt í mikilli uppbyggingu í Garðabæ næstu ár. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir í undirbúningi að tvöfalda íbúafjöldann, úr ríflega 14 þúsundum í um 30 þúsund árið 2030.
Það kalli á byggingu 5 þúsund íbúða fyrir 175 milljarða. Því til viðbótar komi skólar og aðrir innviðir sem slík íbúafjölgun kallar á. Gunnar segir mikla uppbyggingu í undirbúningi og veltir hann því fyrir sér hvort eftirspurn verði eftir öllum þeim íbúðum sem ráðgerðar eru.
„Nú er rosalega mikið í pípunum og spurning hvort eftirspurn sé eftir þessu öllu. Verktakar eru ekki að tala saman. Þeir eru hver á sínum báti. Það er eins með sveitarfélögin,“ segir Gunnar sem kallar eftir samvinnu sveitarfélaga um hönnun umferðarmannvirkja.