Farþegar ósáttir við ákvörðun Strætó

mbl.is/Hjörtur

Fólk sem ætlaði að ferðast heim til sín með Strætó í kvöld um það leyti sem vagnar fyrirtækisins hættu að ganga vegna óveðursins hefur haft samband við mbl.is og sagt farir sínar ekki sléttar. Þeir hafi margir hverjir beðið lengi í biðskýlum eftir strætisvögnum án vitneskju um að þeir væru hættir að ganga.

Kona hafði til að mynda samband við fréttavefinn og sagðist hafa ætlað að taka strætisvagn við Landspítalann upp í Grafarvog. Hún hafi séð aðra vagna koma en ekki þann sem hún hafi ætlað að taka. Hann hafi ekki komið á réttum tíma og hún talið að honum hlyti að hafa seinkað vegna veðursins. Eftir langa bið hafi hún stöðvað annað vagn og þá fyrst fengið upplýsingar um að tekin hefði verið ákvörðun um að hætta akstri strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu.

Konan tók vagninn sem hún stöðvaði upp á Hlemm en þar voru margir í sömu stöðu og hún. Meðal annars erlendir ferðamenn. Hún hafi að lokum tekið leigubíl heim til sín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert