Flugi aflýst og veðrið að skella á

Búið er aflýsa öllu innanlandsflugi og eins hefur millilandaflugi verið aflýst að hluta enda er Reykjanesið í skotlínu óveðursins, ef hægt er að nota það orðalag, segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Gríðarlegur viðbúnaður er vegna óveðursins sem er í vændum og í kvöld mun veðrið nálgast það að flokkast sem fárviðri.

Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að loftvogin falli ört og lægðin nálgist. Við erum að sjá storminn skella fljótlega á eftir hádegi og þetta gerist nokkuð hratt. Þessu fylgir síðan úrhellisrigning víða á sunnanverðu landinu, að sögn Þorsteins.

„Við höfum eiginlega meiri áhyggjur af vestan ofsaveðri sem er spáð um kvöldmatarleytið og skellur á hér á suðvesturhorninu af miklum þunga um það leyti. Það getur gerst mjög snögglega,“ segir Þorsteinn þegar mbl.is ræddi við hann skömmu fyrir hádegið. 

Það er ekkert ferðaveður

Hann segir að þetta óveður eða ofsaveður fari síðan norður í land með kvöldinu og þar getur nálgast fárviðri víða á Norðvesturlandi, frá ströndum austur í Eyjafjörð. Þar getur orðið kolvitlaust veður og eins verður mjög slæmt veður á Suðvesturlandi, segir Þorsteinn.

„Það kólnar í kjölfar vestanáttarinnar nú seinni partinn og um kvöldmat þannig að þetta fer yfir í éljagang. Þetta geta orðið nokkuð dimm él og færð spillst.“

Þorsteinn segir að í stuttu máli megi lýsa veðrinu og færðinni á þennan hátt: Það er ekkert ferðaverður. Þar fari saman bæði vonskuveður og slæm færð.

Allir þeir sem eiga hlut að máli, björgunarsveitir, lögregla, sjúkralið, Vegagerðir o.fl. eru í viðbragðsstöðu en snjóruðningstæki verða til taks víða um land vegna veðurofsans.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni eru allir bátar á leið í land og flutningaskip eru komin í var í Stakksfirði vestur af Reykjanesi þar sem þau bíða af sér veðrið.

Herjólfur sigldi í Þorlákshöfn í morgun en óvíst er með frekari siglingar í dag.

Áætlun Strætó: 

Leið 51 frá Höfn kl. 10.25 féll niður vegna veðurs. 
Leið 51 frá Mjódd kl. 11.30 mun ekki aka lengra en á Selfoss (frá Selfossi kl. 12.25 að Vík fellur niður vegna veðurs).

Leið 57 kl. 09.00 úr Mjódd er á áætlun á leið sinni norður til Akureyrar 
Leið 57 kl. 10.15 frá Akureyri mun að öllum líkindum einungis komast í Borgarnes. 

Þorsteinn segir að það sé ljóst að þau trampólín, öskutunnur o.fl. lausamunir sem ekki hefur verið komið í skjól muni takast á loft ef fólk grípi ekki til aðgerða. Hann óttast að þakplötur geti einnig losnað á Suður- og Vesturlandi í kvöld. 

„Reykjanes er svolítið í skotlínunni ef hægt er að orða það þannig. Eins getur orðið bálhvasst úti við suðurströndina og Vesturland, í raun á öllu Faxaflóasvæðinu.“

Slökkviliðið biður fólk um að hreinsa vel frá öllum niðurföllum svo ekki komi til vatnstjóns í óveðrinu vegna úrhellisins sem fylgir víða með rokinu.

Eins hefur flestöllum samkomum verið aflýst vegna veðurs síðar í dag og kvöld. 

Það eru hálkublettir og éljagangur á Hellisheiði, krapi og él á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði  en annars eru flestir vegir greiðfærir á Suðurlandi.  Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á flestum fjallvegum en að mestu greiðfært á láglendi.

Hálka eða snjóþekja er víða á vegum á Vestfjörðum en þæfingsfærð á Hrafnseyrarheiði.  

Á Norðurlandi vestra er að mestu greiðfært en hálka eða hálkublettir nokkuð víða á Norðausturlandi. Greiðfært er á láglendi á Austfjörðum en hálkublettir á flestum fjallvegum en þó er hálka á Oddsskarði. Suðausturströndin er greiðfær.

Veðurspáin:

Búast má við hættulegum vindhviðum við fjöll eftir hádegi (jafnvel yfir 50 m/s þegar verst lætur) og engu ferðaveðri. Hættulegustu vindhviðurnar verða vestanlands síðdegis, en á norðanverðu landinu frá því seint í kvöld og fram á mánudagsmorgun.

Gengur í suðaustan 18-25 m/s um og upp úr hádegi með rigningu, talsverð eða mikil úrkoma sunnantil á landinu. Hiti 2 til 9 stig. Snýst í suðvestan 20-30 undir kvöld, hvassast suðvestanlands í kvöld, en á norðanverðu landinu frá miðnætti og fram á morgun. Kólnandi í kvöld með slydduéljum og síðar éljum á vesturhelmingi landsins. Dregur hægt úr vindstyrk í fyrramálið, suðvestan 13-18 síðdegis á morgun og áfram él, en úrkomulítið norðaustantil. Hiti um eða undir frostmarki.

Nýjustu kortin af óveðrinu á vef Veðurstofu Íslands

mbl.is/Benedikt Bóas
Af vef Veðurstofu Íslands
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert