Hefði óafturkræf áhrif á miðhálendið

Frá Sprengisandi.
Frá Sprengisandi.

Landvernd ásamt fjórum útivistarfélögum krefst þess að Landsnet og Vegagerðin falli frá áformum um háspennulínu og uppbyggðan veg um Sprengisand þar sem framkvæmdirnar hefðu mikil og óafturkræf áhrif á miðhálendið. Þetta kemur fram í sameiginlegri umsögn félaganna um matsáætlun nýrrar Sprengisandslínu og leiðar.

Framkvæmdirnar eru sagðar munu kljúfa víðerni hálendisins, valda umferðargný í stað öræfakyrrðar og bjóða upp á hættu á frekari „láglendisvæðingu“ hálendisins með uppbyggingu margskonar innviða og þjónustu á svæðinu. Framkvæmdum myndi fylgja umfangsmikið rask og óásættanleg áhrif á náttúru, landslag og víðerni en einnig skerða möguleika á útivist og ferðaþjónustu á hálendinu. Hálendið eins og við þekkjum það í dag, myndi því tilheyra fortíðinni segir í umsögninni sem Landvernd, Ferðafélag Íslands, Ferðafélagið Útivist, Ferðaklúbburinn 4x4 og Samtök útivistarfélaga (SAMÚT) standa að.

Ljóst sé að Sprengisandslína og Sprengisandsvegur séu gríðarlega umdeild á meðal þjóðarinnar. Svo viðamiklar framkvæmdir þurfi því miklu dýpri og ítarlegri umræðu í samfélaginu. Landsskipulagsstefna sem taka eigi við af svæðisskipulagi miðhálendisins 2015 sé ekki tilbúin og almenningi hafi því ekki verið kynnt stefnan. Þá eigi Alþingi eftir að taka hana til efnislegrar meðferðar og afgreiðslu. Þá skorti frekari umræðu í samfélaginu um fleiri valkosti en byggingu Sprengisandslínu og Sprengisandsvegar. Sprengisandsvegur sé ekki á núgildandi samgönguáætlun 2011-2022.

Mikilvæg atriði vanti í umhverfismat

Sprengisandslína byggist á kerfisáætlun sem samþykkt var nýlega af stjórn Landsnets án þess að brugðist hafi verið við meginathugasemdum sem bárust við áætlunina, t.d. hvað varðar grundvallarforsendur hennar og val á milli jarðstrengja og loftlína.

Þá nefna samtökin að mikilvæg atriði vanti inn í fyrirhugað mat á umhverfisáhrifum Sprengisandslínu og Sprengisandsvegar. Dragi Landsnet og Vegagerðin ekki til baka matsáætlanir sínar gera samtökin þá kröfu að bætt verði úr því og Landsnet vinni mat á umhverfisáhrifum jarðstrengs yfir alla Sprengisandsleið en ekki eingöngu hluta hennar.

Jafnframt fara umsagnaraðilar fram á að Vegagerðin kanni áhrif Sprengisandsvegar á hljóðvist á svæðinu, en ekki sé gert ráð fyrir því í drögum að matsáætlun. Þá verði leitað eftir afstöðu Skipulagsstofnunar til þess hvort framkvæmdirnar beri að setja í sameiginlegt umhverfismat, enda séu þær nátengdar samkvæmt drögum að matsáætlunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert