Ragna Erlendsdóttir, einstæð tveggja barna móðir í Reykjavík, er komin á götuna eftir að hafa þrisvar verið synjað um félagslegt húsnæði af hálfu Reykjavíkurborgar.
„Við höfum verið heimilislausar í sex mánuði og höfum þrisvar verið tilnefndar í félagslega íbúð. Þótt þörf okkar sé mikil hefur okkur verið synjað af húsnæðisnefnd velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, sem úthlutar félagsbústaðaíbúðum. Nú erum við heimilislausar eftir að hafa misst bráðabirgðahúsnæði um helgina og neyðumst til að finna athvarf eða gistiheimili.
Ég hef rætt við umboðsmann borgarbúa og gert allt sem mögulega í mínu valdi stendur en það virðist ekkert ganga,“ segir Ragna sem missti dóttur sína sl. sumar eftir langvinn og erfið veikindi.
„Ég biðla til yfirvalda að hjálpa mér. Ég á tvö börn og þykir afar leitt ef þau þurfa að gista á gistiheimili í jólamánuðinum. Fyrir utan að ég er nýbúin að missa barn og þær systur sína. Ég hef hvergi höfði mínu að að halla og mun sofa í bílnum mínum með börnin mín næstu vikur ef ég fæ enga hjálp. Það er ekki einu sinni til athvarf fyrir einstæðar mæður. Það er ekki ódýrt að vera á gistiheimili,“ segir Ragna.
Frétt mbl.is: Heimilislaus síðan í sumar