Föndurdagatal Hurðaskellis og Skjóðu

Skjóða og Hurðaskellir ætla að föndra með krökkunum á hverjum …
Skjóða og Hurðaskellir ætla að föndra með krökkunum á hverjum degi fram til jóla. mbl.is/skjáskot

Föndur á dag kemur skapinu í lag, ef marka má jóladagatal jólasveinar.is, sem hafa fengið systkinin Hurðaskelli og Skjóðu til liðs við sig til að föndra með börnunum alveg fram á aðfangadag. Að jólasveinar.is standa félagar úr Leikópnum Lottu, sem hefur slegið í gegn með sumarsýningum síðastliðin ár.

„Jólasveinar.is eru búnir að vera með jólasveinaþjónustu í sjö ár, frá 2007, og við höfum stækkað frá ári til árs,“ segir Andrea Ösp Karlsdóttir, ein aðstandenda dagatalsins. Í fyrra fékk jólasveinaþjónustan liðstyrk í formi Skjóðu og Langleggjar bróður hennar, sem fóru milli jólaballa, skóla og fyrirtækja með leikrit, söng og dans í kringum jólatréð, og í kjölfarið kviknaði sú hugmynd að gera jóladagatal.

Það var félögunum, sem telja auk Andreu Önnu Bergljótu Thorarensen og Sigstein Sigurbergsson, einnig hvati að Leikhópnum Lottu berast árlega fjöld árskorana um að gefa leikrit leikhópsins og fleira efni út á vídeó.

„Við fáum á hverju ári alveg svakalega mikið af tölvupósti þar sem fólk er að biðja okkur að gefa leikritin út á dvd. Það er hugmynd í vinnslu, en við viljum ekki taka upp leikhúsið heldur viljum við gera bíómyndina Hrói höttur,“ segir Andrea, en það var einmitt leikverk sumarsins 2014. „En okkur datt þá bara í hug að gera þetta sjálf og búa til dagatal með Skjóðu og bróður hennar Hurðaskelli.“

Dagatalið er nokkurs konar handverksdagatal.

„Þetta eru föndurþættir og þau eru alltaf að föndra eitthvað nýtt og skemmtilegt í hverjum þætti. Og þetta gengur svolítið út á að reyna að gera þetta ódýrt og skemmtilegt; öðruvísi jólaföndur með fjölskyldunni,“ segir Andrea, en eitt af markmiðunum sé að föndrið sé persónulegt.

Meðal þess sem Hurðaskellir og Skjóða (sem Hurðaskellir kallar stundum Leiðindaskjóðu!) koma til með að spreyta sig á á eru músastigar, snjókúlur, ávaxtajólatré og grænmetisjólasveinn!

Andrea segir hugmyndir og handrit fyrir dagatal næsta árs þegar liggja fyrir en það verður með öðru sniði. Aðspurð segist hún ekki myndu slá hendi við tækifæri til að sýna dagatalið í sjónvarpi. „Við ákváðum bara að gera þetta fyrir okkur en jú við höfum að sjálfsögðu áhuga á því ef út í það fer.“

YouTube-rás jóladagatalsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert