Hætti við niðurskurð hjá RÚV

mbl.is/Ómar

Stjórn Hollvina Ríkisútvarpsins styður stjórn Ríkisútvarpsins heilshugar og beinir þeim eindregnu tilmælum til Alþingis og ríkisstjórnar að hætta við boðaða fyrirætlun um að skerða lögbundin framlög til Ríkisútvarpsins enn eitt árið, jafnvel til lengri tíma.

Þetta kemur fram í ályktun sem Þorgrímur Gestsson, formaður samtakanna, sendi í kvöld til fjölmiðla um bága fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins

„Ríkisútvarpið er í eigu þjóðarinnar, almannaútvarp sem hefur miklu og óumdeilanlegu hlutverki að gegna í daglegu lífi landsmanna, menningarlífi og fréttaflutningi í þágu eigenda sinna, þjóðarinnar. Fram kom síðast í dag að fréttastofa Ríkisútvarpsins nýtur mests trausts allra fjölmiðla á landinu, útvarps- og sjónvarpsþættir hafa í áranna rás verið verðlaunaðir hvað eftir annað, hérlendis jafnt sem erlendis.

Fari svo að RÚV verði ekki tryggðar fullnægjandi tekjur er sýnt að það getur ekki gegnt hlutverki sínu sem útvarp/sjónvarp í almannaþágu. Þá blasir við stórkostlegt menningarslys, og næstu kynslóðir munu álasa okkur fyrir skemmdarverk. Almannaútvarp er rekið alstaðar í nágrannalöndum okkar, sem er lítið umdeilt þar. Fámennið hér gerir að verkum að enn mikilvægara er að starfandi sé fjölmiðill sem hefur víðtækara menningarlegu hlutverki að gegna en unnt er að gera kröfu til að einkareknir miðlar sinni. Athygli vekur að þrátt fyrir fámennið er hið lögbundna útvarpsgjald sem lagt er á hvert mannsbarn hér lægra en það sem Bretum og Norðmönnum er gert að greiða til sinna almannamiðla, NRK og BBC.

Á sama tíma og stjórn Ríkisútvarpsins sendir ákall til Alþingis um að skera ekki niður útvarpsgjald á komandi árum skora Hollvinir Ríkisútvarpsins á Alþingi að tryggja framtíð þessarar menningarstofnunar allra Íslendinga með því að halda útvarpsgjaldinu óbreyttu og láta það renna óskipt til Ríkisútvarpsins,“ segir í ályktuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert