„Ég tel að björgunarsveitirnar séu sendar í verkefni þar sem verið er að leggja of mikið að veði fyrir of lítil verðmæti,“ segir björgunarsveitarmaðurinn Árni Tryggvason í samtali við mbl.is. Árni skrifaði pistil á Facebook-síðu sína í gær þar sem hann gagnrýnir hlutverk björgunarsveita í fárviðrum.
Árni, sem hefur verið virkur björgunarsveitarmaður í 33 ár, segir vissulega mikla þörf vera fyrir aðstoð sveitanna á slíkum stundum en varpar fram þeirri spurningu hvers eðlis sú aðstoð eigi að vera. „Við erum til í að leggja mikið á okkur til að bjarga lífi og heilsu samborgaranna, en að mínu mati er okkur því miður of oft vaðið út í allt of áhættusamar aðgerðir til að bjarga dauðum hlutum.“
Hann bendir á að stór hluti hjálparbeiðna sem berist í fárviðrum snúist um að bjarga forgengilegum hlutum svo sem trampólínum, garðhúsgögnum og fjúkandi þakplötum, sem auðveldlega hefði verið hægt að fyrirbyggja að færu á flakk. Þá sé björgunarsveitamönnum of oft hætt upp á laus húsþök, sem auðveldlega getu svipst af með skelfilegum afleiðingum.
„Mér finnst það ekki réttlætanlegt að senda menn upp á þak á húsi sem hefur verið viðhald hefur verið vanrækt árum saman og ekki mikil verðmæti liggja í, til að bjarga örfáum ryðguðum bárujárnsplötum. Í slíkum tilfellum ætti frekar að fá björgunarsveitarmenn til að fara í nærliggjandi hús og vara fólk við hættunni,“ segir hann og bætir við að húseigendur þurfi líka að axla þá ábyrgð sem fylgir því að vanrækja eðlilegt viðhald og frágang.
Þá bendir hann jafnframt á að þegar fárviðri er yfirvofandi sé mikilvægt að viðbúnaður sé þess eðlis að tjón verði í lágmarki. „Væri til að mynda hægt að hafa tiltæka krana og vörubíl með sandpokum. Þá myndi kraninn aka á þá staði þar sem þök væru á hreyfingu og fergja þakið án þess að stefna björgunarmönnum í hættu. Ég hef ekki kannað hvort sú aðferð gangi upp en við þurfum að meta hvort aðrar aðferðir séu mögulegar en þær sem notaðar eru. Vissulega þyrftum við í einhverjum tilfellum að fara í hættulega aðstæður, en það er of oft gert í dag. Svo má nefna að öryggisbúnaður okkar miðast við fjallamennsku en ekki við byggingavinnu sem er allt annars eðlis.“
Árni rifjar upp aðgerð sem hann tók þátt í fyrir nokkrum árum síðan til að bjarga þaki á húsi eins stærsta verktakafyrirtækis landsins. „Við komum þarna ómenntaðir sem iðnaðarmenn en vopnaðir kjarkinum og tókst að koma böndum á og hemja þakið. En inni sátu hópar iðnaðarmanna sem voru að mínu mati mun hæfari til að leysa verkefnið. Þá tók ég þá ákvörðun fyrir sjálfan mig að þetta væri orðið gott í bili.“
Árni segir mikla þörf á hugarfarsbreytingu. „Ég veit af eigin raun að og margir úr okkar röðum veigra ekki fyrir sér að leggja líf sitt og heilsu í stórhættu til þess eins að bjarga hugsanlega örfáum bárujárnsplötum, þakrennu eða trjágrein sem skrapast getur utan í hús og skemmt eitthvað. Hér er að mínu mati kolröng áhersla í aðgerðum.“
„Mannslíf og heilsa eru óbætanleg verðmæti, en því miður virðist svo vera sem of stór hluti björgunarsveitarmanna og þeirra sem aðstoð okkar þiggja þyki okkar líf og heilsa minna virði en annarra. Jafnvel minna virði en húshlutar og auðbætanleg verðmæti.“
Hann segir það í margra hugum flokkast undir björgunarafrek og hetjudáð að hemja fjúkandi þakplötur. „Fyrir mér er það fífldirfska að hindra tjón sem auðveldlega má bæta og er ekki mannslífa virði.“
Þá segir Árni að bæturnar sem björgunarsveitarmenn eigi rétt á ef þeir lendi í tjóni í aðgerðum séu grátlega litlar. „Við teljum ekki eftir okkur að missa úr vinnu og hugsanlega vera frá vinnu í einhvern tíma eftir björgun fólks. Ef við lendum í líkamstjóni í aðgerðum tekur daga og vikur að komast á eðlilegar bætur, en slökkviliðsmaðurinn sem stendur við hlið okkar í sömu aðgerð á rétt á bótum strax eftir slys. Því er löngu tímabært að þessi mál verði tekin til gagngerar endurskoðunar, með hag allra að leiðarljósi,“ segir hann.
„Björgunarsveitirnar eru að vinna frábært starf og ég er stoltur af þátttöku minni í því starfi. En engin starfsemi, hversu góð sem hún er, er hafin yfir gagnrýni og best er ef sú gagnrýni kemur innan frá áður en eitthvað fer alvarlega úrskeiðis. Reyndar er orðinn brýn þörf á að sveitirnar fari yfir þau verkefni sem þær sinna á miklu breiðari grundvelli.“