Aðventulægðin sem kom upp að landinu í gær setti samfélagið víða úr skorðum. Að sögn Birtu Lífar Kristinsdóttur, veðurfræðings á Veðurstofunni, mældist mestur vindstyrkur í hviðum á Stórhöfða klukkan sjö í gærkvöldi, eða 55 metrar á sekúndu.
Mestur stöðugur vindur mældist á Eyrarbakka og í Þykkvabæ eða 29 metrar á sekúndu. Allt fauk sem fokið gat að sögn björgunarsveitarmanna. Þakplötur og jafnvel þök í heilu lagi. Mikið var um brotna glugga og hurðir sem höfðu fokið upp, skúrar fuku, klæðningar losnuðu, sólpallar og girðingar fóru af stað og tré sem jólatré féllu.
Vindstyrkurinn við höfuðborgarsvæðið mældist mestur á Mosfellsheiði, eða 29 metrar á sekúndu um níuleytið. Flokkast það sem ofsaveður.
Björgunarsveitir á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norður- og Norðausturlandi voru komnar í viðbragðsstöðu þegar Morgunblaðið fór í prentun seint í gærkvöldi þar sem spár gerðu ráð fyrir að óveðrið færi þar yfir í nótt.