Traust á fjölmiðlum dregst saman

RÚV nýtur sérstöðu þegar kemur að trausti almennings á fjölmiðlum. …
RÚV nýtur sérstöðu þegar kemur að trausti almennings á fjölmiðlum. Flestir treysta RÚV og fæstir bera lítið traust til RÚV. Þórður

Traust almennings á íslenskum fjölmiðlum hefur dregist mjög saman á þeim tíma sem liðinn er frá hruninu. Það er fréttastofa RÚV sem nýtur áfram mest traust og mbl.is kemur þar á eftir. 

MMR kannaði á dögunum traust almennings til helstu sjónvarps-, prent- og netfréttamiðla. Traust til meirihluta þeirra fjölmiðla sem mældir voru hefur dregist saman frá því í nóvember 2013.

Af þeim fréttamiðlum sem kannaðir voru báru svarendur mest traust til fréttamiðla RÚV. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 70,6% bera mikið traust til Fréttastofu RÚV (76,5% í nóvember 2013) og 64,5% sögðust bera mikið traust til ruv.is (71,1% í nóvember 2013).

Í flokki netfréttamiðla naut mbl.is næst mest trausts meðal almennings (á eftir ruv.is). Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 46,7% bera mikið traust til mbl.is. Í nóvember 2013 mældist traustið á mbl.is 51,2%.
     

Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 33,9% bera mikið traust til Vísis og 27% sögðust bera mikið traust til Kjarnans.

Þeir prentmiðlar sem nutu mest trausts meðal almennings voru Morgunblaðið og Fréttablaðið. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 40,6% bera mikið traust til Morgunblaðsins nú, borið saman við 46,4% í nóvember 2013 og 34,9% sögðust bera mikið traust til Fréttablaðsins nú, borið saman við 39,2% í fyrra. Hlutfallslega fleiri sögðust bera lítið traust til Morgunblaðsins en til Fréttablaðsins. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 30,2% bera lítið traust til Morgunblaðsins en 22,9% sögðust bera lítið traust til Fréttablaðsins, að því er segir á vef MMR.

Fæstir treysta Pressunni og Eyjunni

Traust til fréttamiðla DV hefur aukist frá því í nóvember 2013. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 14,5% bera mikið traust til DV, borið saman við 10% í fyrra. Þá sögðust  og 13,2% bera mikið traust til dv.is nú, borið saman við 9,1% í nóvember 2013. Það eru hins vegar 57,6% sem bera lítið traust til DV nú. Tæp 8% bera mikið traust til Eyjunnar og Pressunnar en þeir miðlar reka lestina hvað varðar traust til fjölmiðils. 

Hér er hægt að skoða könnun MMR í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert