Ekki bannað að fara í berjamó

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar. Myndin er úr safni.
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar. Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tillögur um náttúrupassa skerða ekki almannarétt, sem getur þó ekki gengð framar náttúruverndarsjónarmiðum. Þetta var meðal þess sem kom fram í svari iðnaðar- og viðskiptaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, þegar hún svaraði fyrirspurnum Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, og Svandísar Svavarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna um fyrrnefndan náttúrupassa.

Í inngangi að spurningum sínum sagði Árni Páll að ríkisstjórnin hefði átt í vandræðum með það hvernig hún ætti að innheimta gjöld af ferðaþjónustunni en ráðherra hefði í 18 mánuði talað um náttúrupassa. Nú lægi fyrir algjör andstaða greinarinnar við hugmyndir ráðherra.

Árni Páll spurði hvers vegna ætti að fara þá leið að búa til nýtt kerfi ófrelsis og opinbers eftirlits þegar þess væri ekki þörf. Þá sagði hann almannarétt hafa verið við lýði frá þjóðveldisöld og að afnám hans væri stórt skref. Hann spurði ráðherra einnig að því í hverju sáttarumleitanir hennar sl. mánuði hefðu falist.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði að ekki væri hægt að rekja uppruna hugmynda um náttúrupassa til sín. Þær hefðu verið til umræðu um langt skeið. Ráðherra hefði verið falið að útfæra tillögur um náttúrupassa og það hefði hún gert. Aðilar í ferðaþjónustu hefðu ekki mótmælt hugmyndunum áður.

Árni Páll gagnrýndi að ríkisstjórnin færi sömu leið í öllum málum, að leggja gjald á Íslendinga fyrir að njóta sjálfsagðra réttinda, í stað þess að leggja gjöld á greinina sjálfa. Ráðherra sagði hins vegar að passinn væri leið til að tryggja fjármuni til uppbyggingar á þeim stöðum þar sem hann gilti og að 80-90% tekjanna myndi koma frá erlendum ferðamönnum.

Hún ítrekaði að ekki væri verið að skerða almannarétt, heldur gilti passinn á ákveðnum skilgreindum stöðum. Það væri ekki verið að banna fólki að fara í berjamó.

Svandís Svavarsdóttir sagði málið einmanna á afrekaskrá ráðherrans. Hún spurði m.a. að því hvaða hagsmuna hún væri að gæta ef farið væri gegn afstöðu ferðaþjónustunnar.

Ráðherra bað þingmenn um að sýna biðlund þar til tillögurnar lægju fyrir, þar sem erfitt væri að svara fjarstæðukenndum málflutningi. Hún sagði að ekki væri verið að leggja til að lögregla hefði eftirlit með almenningi á Íslandi, eins og þingmaður vísaði til í fyrirspurn sinni.

Þá sagði hún að þeir hagsmunir sem væru undir væru verndun íslenskrar náttúru, sem ferðamenn koma til að skoða og Íslendingar vildu njóta um aldur og ævi. Hún sagði að takmarka mætti almannarétt með náttúruvend að leiðarljósi.

Svandís spurði einnig að því hver myndi hafa eftirlit með því hvort passinn væri við hendi eða ekki og hvað myndi gerast ef Íslendingur gæti ekki framvísað passanum.

Ráðherra sagði að framkvæmdin yrði á höndum Ferðamálastofu og að eftirlit yrði í höndum svokallaðra náttúruvarða. Þá yrði hægt að leggja á sektir ef menn væru ekki með passa.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sem einnig tók til máls í fyrirspurnatímanum, sagði orðaskipti ráðherra og þingmanna ekki hafa minnkað áhyggjur sínar. Hann sagðist þó fagna því ekki stæði til að leggja skatt á berjamó.

Þá sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, að frekar myndi hann sitja af sér sekt í fangelsi en borga fyrir að horfa á Dettifoss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert