Engin viðbrögð frá Sigurði Inga

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lítið tjáð sig …
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lítið tjáð sig í fjölmiðlum um málefni Fiskistofu að undanförnu. mbl.is/Golli

Starfsfólk Fiskistofu hefur ekki fengið viðbrögð frá Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegsráðherra vegna áskorunar sem það afhenti í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í gærmorgun. 

mbl.is leitaði einnig viðbragða hjá Sigurði Inga vegna áskorunarinnar en án árangurs. 

Í áskoruninni var ráðherrann fyrst og fremst hvattur til að hætta við flutning höfuðstöðva Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar. „Þú yrðir maður að meiri og um leið leiddir þú málið út úr því öngstræti sem það er komið í,“ sagði í tilkynningunni. 

Starfsfólkið hafði gert fjórar tilraunir á rúmlega tveimur vikum til að ná sambandi við ráðherrann og afhenda honum áskorunina. Allt kom fyrir ekki og ákvað starfsfólkið því að mæta í ráðuneytið þar sem áskorunin var lesin upp. 

Er flutningurinn lögmætur?

„Ákvörðun um flutning Fiskistofu er ólögmæt, þ.e. heimild Alþingis liggur ekki fyrir. Það er alveg skýrt með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 312/1998,“ sagði einnig í áskoruninni.

Í gær var tilkynning birt á vef stjórnarráðsins þar sem meðal annars kom fram að endurvekja ætti almenna heimild ráðherra til að ákveða aðsetur stofnana sem undir hann heyra í frumvarpi til laga um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands. mbl.is hafði áður greint frá því að þessar breytingar stæðu til. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert