Hvað varðar kjaraviðræður lækna líta menn til heildaráhrifanna, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði ráðherra hvort hann hygðist beita sér fyrir því að leystist úr deilunni.
Þingmaðurinn sagðist beina spurningum sínum til forsætisráðherra í ljósi þess að hvorki fjármálaráðherra né heilbrigðisráðherra voru viðstaddir í fyrirspurnatímanum. Hún sagði málið alvarlegt, biðlistar lengdust og heilbrigðiskerfið væri undir miklu álagi. Áhrif verkfallsins yrðu alvarlegri með degi hverjum, sjúklingar biðu í óvissu og fyrirsjáanlegur væri landflótti lækna sem græfi undan kerfinu til lengri tíma.
Forsætisráðherra sagði ekki ofsögum sagt að almenn samstaða ríkti um mikilvægi heilbrigðismála á þinginu og í samfélaginu. Hann sagði þetta endurspeglast í nýjum fjárlögum, þar sem aukið væri á fjárframlög til heilbrigðismála, ekki síst til Landspítalans, en þau hefðu aldrei verið meiri.
Sigmundur sagðist hafa verulegar áhyggjur af verkfalli lækna og að hann hefði nefnt það hvort ekki væri rétt að reyna að ná þjóðarsátt meðal aðila vinnumarkaðarins og þingmanna um forgangsröðun í þágu heilbrigðismála.
Hann sagði hins vegar að ljóst lægi fyrir að einhverjir aðilar vinnumarkaðarins, líklega flestir, teldu að ekki væri hægt að líta á kjaradeilu lækna og ríkisins sem einangrað tilvik, sem myndi ekki skapa fordæmi annars staðar. Og það þýddi að við lausn málsins litu menn til heildaráhrifanna. Hann sagði þetta áminningu um mikilvægi þess að undirstrika sérstöðu málsins.