Óvissa um fjölgun félagslegra íbúða

Halldór Halldórsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Halldór Halldórsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar

„Við gætum verið í upphafi þess sem kallast bóla,“ sagði Hall­dór Hall­dórs­son, odd­viti Sjálf­stæðis­flokks­ins í Reykja­vík, á borgarstjórnarfundi í dag. Þar fór fram seinni umræða um fjár­hags­áætl­un Reykja­vík­ur­borg­ar fyr­ir næsta ár. Halldór gagnrýndi áætlunina á fundinum og sagðist hafa áhyggjur af rekstrarstöðu borgarinnar.

Þá sagði hann óvissu ríkja um rekstrargrundvöll félagslegra leiguíbúða og sagðist skynja miklar áhyggjur af því hvernig farið verði að því að reisa 500 nýjar leiguíbúðir á næstu fimm árum, eins og borgarráð hefur samþykkt að gera. „Það er mikil óvissa um hvernig eigi að framkvæma þetta. Það var sett fram tillaga með tilvísun í hugmyndir að stefnu sem er ekki til. Að ríkið eigi að borga eitthvað sem ríkið hefur ekki ákveðið að borga. Þetta er svolítið í þoku fyrir mér.“

Þá sagði hann félagsbústaði ekki standa nægilega vel. „Eins og sjóðstreymið er núna er veltuféð of lágt og dugar ekki til.“ Halldór varpaði fram þeirri spurningu hvað myndi gerast ef húsnæðismálaráðherra „gerir ekkert. Ætlar meirihlutinn þá að falla frá því að reisa 500 nýjar leiguíbúðir?“

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, svaraði Halldóri og sagði það vissulega áhættuþátt við uppbyggingu félagshúsnæðis að ráðherra myndi ekki fara að orðum sínum. „En í þeim viðræðum sem ég hef átt við ráðherra hef ég ekki fundið annað en metnað og vilja til að standa við stóru orðin og ég get ekki annað en treyst því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka