Bændur í Svarfaðardal við Eyjafjörð hafa séð mikið af sporum eftir mýs á víðavangi að undanförnu og tengja það við gosmengun frá Holuhrauni.
Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur býr á Laugasteini í Svarfaðardal.
„Bóndi hérna sagði mér að hér væri mikið um mýs uppi á yfirborðinu. Honum fannst það óvenjulegt vegna þess að það hefði verið svo gott veður og alls ekkert kalt. Hann tengdi það við súrt regn, eða mengaða úrkomu vegna gossins, sem mýsnar væru að flýja,“ segir Ragnar.
„Ég held að bóndinn hafi rétt fyrir sér. Það hefur verið þónokkuð mikil gasmengun í Svarfaðardalnum. Hún hefur lítið verið mæld en menn finna fyrir henni. Hér eru há fjöll í kring og í dalnum er mikil kyrrð miðað við umhverfið. Þannig að jafnvel þótt mökkurinn, eða gasið, eigi að leita til vesturs, eða eitthvað annað, er eins og mengunin leiti oft niður í dalinn. Gasið er þyngra en annað loft og sígur ofan í dalinn. Það sama gildir um Eyjafjörðinn. Hér hefur oft og tíðum verið ansi mikil gasmengun. Loftið hreinsast í rigningu en um leið fer mengunin ofan í jörðina. Þar er að finna brennisteinstvíildi, flúor og fleiri efni, sem dýrunum líkar ekki við í holum sínum,“ segir Ragnar.
Hann telur enga hættu á því að mengunin berist í grunnvatn og hafi þannig skaðleg áhrif á heilsufar manna. „Mengunin síast úr í grassverðinum. Bændur hafa líka kvartað undan því að miðað við veðurfar hafi hagamýs leitað óvenjumikið inn í hús. Hagamýs leita alltaf inn í hús þegar það verður mjög kalt. Þá er of kalt fyrir þær að vera ofan í jörðinni. Nú flýja þær mengunina og reyna að koma sér inn í hús.“
Fram kom í Morgunblaðinu 25. nóvember að mikill músagangur væri í Mývatnssveit og tengdi bóndi í þeirri sveit það við hlýindi en ekki mengun frá gosinu í Holuhrauni.