Telur að Brynjar verði dómsmálaráðherra

Hvernig verður ríkisstjórnin samsett á morgun?
Hvernig verður ríkisstjórnin samsett á morgun? mbl.is/Eggert

Tilkynnt verður á morgun hver tekur við sem innanríkisráðherra í stað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og hafa vafalaust margir velt því fyrir sér hver arftaki hennar verði. Þar á meðal er Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar. „Nú ætla ég sem sé að gera eftirfarandi pólitíska spá sem er um morgundaginn en getur líka verið að hún klárist ekki fyrr en milli jóla og nýárs,“ segir Kristján á Facebook-síðu sinni í kvöld.

Kristján spáir því að Einar K. Guðfinnsson, núverandi forseti Alþingis, verði innanríkisráðherra. Brynjar Nielsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, verði nýr dómsmálaráðherra í innanríkisráðuneytinu. Eygló Harðardóttir, núverandi félags- og húsnæðisráðherra, verði færð yfir í umhverfis og auðlindaráðuneytið. Nýr ráðherra félags og húsnæðismála verði Lilja Alfreðsdóttir hagfræðingur sem ekki á sæti á Alþingi en var nýverið lánuð úr Seðlabankanum til forsætisráðuneytisins til þess að sinna ákveðnum verkefnum.

Þá spáir Kristján því að Ragnheiður Ríkharðsdóttir, núverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, verði nýr forseti Alþingis og Unnur Brá Konráðsdóttir taki við sem formaður þingflokks sjálfstæðismanna. Þá er bara spurningin hvort Kristján reynist sannspár.

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar.
Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert