„Í stuttu máli var ég að skoða upplifun á femínisma og tala við unga karlkyns femínista á Íslandi á aldrinum 18-27 ára. Þeir höfðu komið að femínisma í ýmsum myndum og eru að mörgu leyti fjölbreyttur hópur,“ segir Hjálmar Gunnar Sigmarsson, um MA rannsókn sína í kynjafræði. Hjálmar vann rannsóknina fyrir MA verkefni við háskóla í Búdapest (Central European University) þar sem hann útskrifaðist með meistaragráðu í kynjafræði.
Hjálmar sagði frá rannsókninni á morgunverðarfundi Stígamóta í morgun. „Í erindi mínu í morgun var ég að einbeita mér að þeim hluta rannsóknarinnar sem snýst um hlutverk karla í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Fyrir þessa karlmenn sem ég ræddi við er það mjög mikilvægur málaflokkur og jafnframt mikilvæg leið til að tengjast femínisma. Einnig er talað um baráttu gegn kynferðisofbeldi sem mikilvægan inngangspunkt í umræðuna um jafnréttismál almennt.“
Eftir erindi Hjálmars voru pallborðsumræður og í þeim tóku þátt þau Arnar Gíslason, Jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands, Gyða Margrét Pétursdóttir, lektor við Háskóla Íslands og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, rithöfundur.
Hjálmar starfar sem ráðgjafi hjá Stígamótum. Þar vinnur hann einnig að forvarna- og fræðsluvinnu.
„Einn af þeim málaflokkum sem við höfum verið að vinna með meira og meira undanfarin ár er að hjálpa karlmönnum að takast á við ábyrgð þeirra í kynferðisbrotamálaflokknum. Þegar ég segi ábyrgð meina ég auðvitað ekki að einstaka karlmenn beri ábyrgð á þeim nauðgunum og kynferðisofbeldi sem aðrir karlmenn beita, en þeir hafa aðgang að „karlamenningu“ þar sem þeir eru í stöðu til þess að uppræta skaðleg viðhorf gagnvart kynferðisofbeldi ,“ segir Hjálmar.
Af þeim málum sem koma til Stígamóta eru brotamenn karlkyns í rúmlega 90% tilvika. Að sögn Hjálmars er áberandi hlutfall af gerendunum jafnframt ungir karlmenn.
„Þess vegna þurfum við að skoða þetta alveg sérstaklega, án þess að gera lítið úr öðru kynferðisofbeldi, sem að t.d. karlmenn verða fyrir. Stígamót hefur boðið upp á þjónustu fyrir karlmenn í tæplega tuttugu ár og erum við núna að auka þá þjónustu.“
Viðmælendur Hjálmars í verkefninu voru sammála um það að femínísk umræða hafi aukist á Íslandi síðustu ár. Bæði er meiri umræða en einnig hefur skapast meira rými fyrir femínisma.
„Sumir töluðu um það að femínismi og sú umræða væri jafnvel í tísku. Það eru fleiri opnari fyrir femínisma og almennt séð jákvæðir straumar í gangi. En mótspyrnan er einnig áberandi og ef eitthvað er hefur hún vaxið. Það eru tveir mjög skýrir andstæðir pólar í gangi,“ segir Hjálmar.
Á sama tíma og femínismi er í tísku hefur það líka leitt það af sér að sumir vilja ekki sýna að þeir séu á móti honum eða jafnfrétti kynjanna. „Sumir fela sig á bak við það og koma ekki fram með sínar eigin skoðanir en á móti kemur að það er líka til hópur sem er alveg ófeiminn við það,“ segir Hjálmar.
Hann segir jafnframt að það að vera femínisti sé ekki eitthvað sem gerist upp úr þurru. „Þetta getur verið langt ferli Þegar þú áttar þig á því að þú sért femínisti heldur ferlið áfram og þú ferð að skoða ýmsa hluti öðruvísi og átta þig á ýmsu. Þeir átta sig á ýmsu í umhverfinu sem karlar búa í og hvernig karlremba og kvenfyrirlitning birtist í ýmsum myndum.“
Hjálmar segir að mikilvægi umræðu um kynferðisofbeldi kom skýrt í ljós í máli viðmælenda hans í rannsókninni. Hann segir að umræða um kynferðisofbeldi sé lykilleið til þess að átta sig á kynbundinni mismunun.
„Viðmælendurnir nefndu Druslugönguna og önnur framtök sem hafa hjálpað þeim við að átta sig á því. Þannig að bæði opinber umræða og persónuleg tengsl hafa áhrif. Það þarf að átta sig á því að kynferðisofbeldi á sér stað í okkar nánasta umhverfi, þetta er ekki bara eitthvað sem gerist úti í bæ.“
Hann segir að það hafi verið sláandi fyrir suma viðmælendur þegar þeir áttuðu sig á því að gerendur kynferðisofbeldi væru í þeirra nánasta umhverfi.
„Þá fara þeir að líta öðrum augum á hegðun karla í kringum sig og skoða líka sína eigin hegðun. Þó þú sért ekki þáttakandi geturðu verið þögull þátttakandi með að segja ekki neitt. Þannig ertu að leyfa þessa hegðun í staðinn fyrir að skora á hana,“ segir Hjálmar.
Að mati Hjálmars eru ýmsar nýjar aðferðir í gangi til þess að takast á við nauðgunarmenningu og fjölbreytileika kynferðisofbeldis. „Þetta er að taka á sig nýjar myndir, eins og til dæmis hefndarklám. Við töluðum um það í morgun sem nýja birtingarmynd af kynferðisofbeldi og það þarf virkilega að takast á við það. Þetta kallar á mikilvægi þess að vera vakandi, netið er líka svo flókið og það verður erfitt að takast á við það ef við erum smeyk við það.
Það þarf líka að takast á við skrímslahugtakið. Það má ekki skrímslavæða brotamennina því þá er eins og þeir séu ekki hluti af samfélaginu. En þeir eru það, þeir geta verið vinir, bræður, feður og frændur.“
Hjálmar leggur jafnframt áherslu á mikilvægi þess að koma þessari umræðu inn í menntakerfið. „Það þarf að koma fræðslu um kynjafræði og jafnrétti meira inn í menntakerfið. Það þarf líka að nota þetta tækifæri sem er núna í loftinu, í ljósi þess að mörgum finnist þetta nýtt og spennandi, þá þarf að nýta þetta tækifæri .“