Ráðast þarf í miklar viðgerðir á Stykkishólmskirkju á næstunni vegna leka. Vatnselgur af þaki fer m.a. í veggi, veldur þar sprungum og þegar frost kemst í þær margfaldast skaðinn.
Fyrir vikið liggur kirkjan undir skemmdum, viðgerðir eru aðkallandi og ætla má að þær kosti um 50 millj. kr., að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
„Við erum ráðþrota,“ segir Magndís Alexandersdóttir, gjaldkeri sóknarnefndar. Hún segir sjóði kirkjunnar tóma og ekki liggi fyrir vilyrði um stuðning annars staðar frá. Ekki megi þó láta bygginguna grotna niður.