„Nei, svona gera menn ekki“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Kristinn

„Ætlar enginn að standa upp og stoppa þessa vitleysu,“ spurði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, á Alþingi í dag er hann ræddi væntanlegt frumvarp ferðamálaráðherra um náttúrupassa. Vísaði hann til fréttar RÚV þar sem kemur fram að Íslendingar sem vilji heimsækja Þingvöll verði að framvísa slíkum passa.

Steingrímur benti á, að fréttastofan hefði greinilega í höndum upplýsingar um frumvarp ráðherra. Samkvæmt fréttum væri það þannig útfært „að frá og með næsta hausti, ef það næði fram að ganga, þyrftu Íslendingar að framvísa náttúrupassa á Þingvöllum og mundu sæta sektum ella ef svokallaðir náttúruverðir stæðu þá að því að vera á ferð um Þingvelli án sérstaks náttúrupassa,“ sagði hann.

„Enn alvarlegri tel ég þó vera þá skýringu sem höfð er eftir ráðuneytinu að almannarétturinn eigi ekki við og í frumvarpinu sé þar af leiðandi ekki gengið á hann vegna þess að það sé áníðsla á stöðunum. Hvert er ráðuneytið að fara með þessari fráleitu túlkun sinni? Og hvar verðum við þá stödd? Hvað munu einkaeigendur á landi segja og gera ef túlkun umhverfisráðuneytisins varðandi jafnvel mesta helgistað þjóðarinnar stæðist, að vegna þess að hann sé undir álagi vegna heimsókna erlendra ferðamanna gildi almannarétturinn ekki gagnvart íslensku þjóðinni,“ spurði Steingrímur.

Hann sagði að þett væri yfirgengilegt. „Ætlar enginn að standa upp og stoppa þessa vitleysu? Er enginn í stjórnarflokkunum sem hefur burði til þess að standa upp og segja: Nei, svona gera menn ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert