Ólöf Nordal nýr innanríkisráðherra

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, ræddi við fréttamenn í …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, ræddi við fréttamenn í Valhöll í morgun þar sem greint var frá nýjum ráðherra. mbl.is/Ómar

Ólöf Nordal verður nýr innanríkisráðherra í stað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem óskaði eftir því að láta af embætti í síðasta mánuði. Þetta var tilkynnt á þingflokksfundi sjálfstæðismanna sem fram fór í morgun. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti fjölmiðlum þetta að lokum fundinum. Skipun Ólafar verður staðfest formlega á ríkisráðsfundi síðar í dag.

Ólöf mun einnig taka við dómsmálunum sem verða aftur færð undir embætti innanríkisráðherra en málaflokkurinn var að ósk Hönnu Birnu færð til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra síðastliðin sumar. Ólöf var varaformaður Sjálfstæðisflokksins 2010–2013. Hún sat á Alþingi fyrir Norðausturkjördæmi 2007–2009 og Reykjavíkurkjördæmi suður 2009–2013. 

Ólöf er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA–gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur víðtæka starfsreynslu og hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa segir í tilkynningu. Á þingi sat Ólöf meðal annars í samgöngunefnd sem varaformaður, í allsherjarnefnd, utanríkismálanefnd, stjórnskipunar– og eftirlitsnefnd, fjármálanefnd, kjörbréfanefnd og sérnefnd um stjórnarskrármál.

Áður en hún tók sæti á Alþingi var hún framkvæmdastjóri Orkusölunnar og þar áður framkvæmdastjóri sölusviðs RARIK, 2004–2005 og yfirmaður heildsöluviðskipta hjá Landsvirkjun, 2002–2004.

Ólöf var deildarstjóri lagadeildar Háskólans á Bifröst, frá 2001–2002 auk þess sem hún sinnti stundakennslu við skólann 1999–2002 samhliða starfi sínu sem lögfræðingur Verðbréfaþings Íslands á árunum 1999–2001. Á árunum 1996–1999 gegndi hún starfi deildarstjóra í samgönguráðuneytinu og starfaði í lögfræðideild Landsbanka Íslands 1995–1996.

Eiginmaður Ólafar er Tómas Már Sigurðsson og eiga þau fjögur börn.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins kom saman til fundar í Valhöll í morgun.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins kom saman til fundar í Valhöll í morgun. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert