„Ég veit að margir þingmenn þekkja það frá verktökum og einstaklingum að þeir segja farir sínar misjafnar í samskiptum við þessi fyrirtæki, en maður hefur ekki haft þetta svona svart á hvítu hvernig dæmið stendur.“
Þetta sagði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í umræðu um störf þingsins á Alþingi í gær. Í máli sínu gerði Jón fjármögnunarfyrirtækið Lýsingu að umræðuefni og nefndi hann dæmi um samskipti þess við jarðvinnufyrirtæki sem í kjölfar dóms í tengslum við skuld þurfti að skila inn tíu stórtækum vinnuvélum og einni jeppabifreið.
Verðmat Lýsingar á þessum tækjum var, með virðisaukaskatti, rétt rúmlega 46,6 milljónir króna. „Viðkomandi gerir athugasemd við Lýsingu um þetta og farið er með þessi tæki á nauðungaruppboð þar sem þau fara á 73 milljónir,“ sagði Jón og bætti við að markaðsvirði þessara tækja, samkvæmt mati löggiltra sala, væri tæpar 119 milljónir króna, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.