„Það kemur einfaldlega ekkert frá ráðherranum varðandi þetta mál nema í gegnum fjölmiðla og við teljum að það sem þar hafi komið fram sé ekki rökstutt. Hann hefur ekki virt okkur svars eða brugðist við spurningum frá okkur sem er einmitt ástæðan fyrir þessu bréfi.“
Þetta segir Guðmundur Jóhannesson, deildarstjóri hjá Fiskistofu og einn fulltrúa starfsmanna stofnunarinnar, en starfsmenn hafa sent Sigurði Inga Jóhannessyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra formlegt bréf þar sem óskað er eftir skriflegum svörum við tveimur spurningum.
Annars vegar er spurt hver sé áætlaður kostnaður við flutning höfuðstöðva Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar með tilvísum til fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar. Spurningunni er skipt í nokkra liði meðal annars með tilliti til húsaleigu og þjálfun nýs starfsfólks.
Hins vegar er spurt út í ummræli sem Sigurður Ingi lét falla í samtali við Ríkisútvarpið þess efnis að reynsla Norðmanna væri sú að flutningur stofnana frá höfuðborgarsvæðinu þar í landi og út á land væri sú að starfsemin hefði blómstrað. Spurt er á hvaða gögnum sú fullyrðing sé byggð.
Guðmundur segir að gögn sem starfsmenn Fiskistofu hafi undir höndum sýni hið gagnstæða. Meðal annars skýrsla fyrir norsk stjórnvöld frá árinu 2009. „Þetta gekk illa og mistókst allt meira eða minna. Nema eitt, samband stofnunarinnar á nýjum stað við ráðuneytið í Ósló rofnaði ekki. Annað þýddi mikinn kostnað og starfsemin lamaðist.“
Bréfinu líkur á ítrekun á beiðni starfsmanna Fiskistofu um fund með fulltrúum þeirra sem send hafi verið ráðherra fyrir þremur vikum en ekki verið svarað.