Kjálkabraut stúlku og stoltur af því

Fangaklefi á Litla Hrauni.
Fangaklefi á Litla Hrauni. mbl.is

Kristjáni Markúsi Sívarssyni var í Hæstarétti á þriðjudaginn gert að sæta gæsluvarðhaldi til 22. desember. Áður hafði Héraðsdómur Reykjaness hafnað sömu kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Skeljagrandabræður báðir eru því á bak við lás og slá.

Að þessu sinni var Kristján handtekinn 27. nóvember síðastliðinn vegna tilkynningar til lögreglu sem barst 25. sama mánaðar. Þá var tilkynnt um fyrirvaralausa líkamsárás á stúlku á bifreiðastæði.

Lögregla hitti stúlkuna fyrir og var hún blóðug og bólgin um vit. Bar hún við að hafa verið á bifreiðastæðinu ásamt vinkonu sinni þegar Kristján réðst að tilefnislausu á þær. Hefði hann slegið aðra þeirra margsinnis í andlitið og segir í greinargerð lögreglu að hún sé líklega nef- og kjálkabrotin, jaxl hafi brotnað og hún hlotið heilahristing.

Þá fékk lögregla upplýsingar um það að Kristján hefði í kjölfar árásarinnar sent vitni smáskilaboð þar sem hann sagðist vera stoltur af háttsemi sinni.

Þegar Kristján var handtekinn neitaði hann sök en viðurkenndi að hafa verið á vettvangi. Einnig kannaðist hann við að hafa verið í samskiptum við stúlkuna sem ráðist var á vegna atviksins í gegnum samfélagsvefinn Facebook.

Réðst á strætisvagnstjóra í akstri

Kristján á bæði mál sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjaness, eitt sem er til meðferðar hjá ríkissaksóknara og annað hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.

Hann hefur þegar verið ákærður fyrir að hafa 15. mars síðastliðinn veist að tilefnislausu að strætisvagnabílstjóra með hnefahöggum. Strætisvagninn var í akstri með farþega og skapaðist töluverð hætta af þeim sökum. Bifreiðarstjórinn hlaut áverka og vitni sáu Kristján slá bílstjórann tveimur hnefahöggum.

Það mál er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness og verður aðalmeðferð í janúar. Auk árásarinnar á bílstjórann er hann ákærður fyrir aðra líkamsárás, fíkniefnabrot, þjófnaði, umferðarlagabrot og framleiðslu og sölu á landa.

Mannrán og pyntingar

Þá verður ákæra gefin út á næstu dögum vegna frelsissviptingar, ólögmætrar nauðungar og líkamsárásar 24. febrúar 2014. Í málinu er Kristján undir sterkum grun um að hafa ásamt fleiri mönnum svipt karlmann frelsi með því að halda honum nauðugum á heimili hans og beita hann grófu ofbeldi í allt að tvær klukkustundir. Var maðurinn sleginn hnefahöggum í andlitið, hert að hálsi hans þannig að honum hefði legið við köfnun og hann stunginn ítrekað.

Ennfremur verður á næstu dögum sent ríkissaksóknara enn eitt málið þar sem nafn Kristjáns kemur fyrir. Í því er hann undir sterkum grun um að hafa svipt mann frelsi sínu, hótað og ráðist alvarlega gegn honum.

Hinn 6. ágúst kom karlmaður á lögreglustöð og tilkynnti að hann hefði orðið fyrir líkamsárás af hendi Kristján. Maðurinn hefði verið í mikilli geðshræringu og ekki verið skýrsluhæfur að mati lögreglu. Hann var því fluttur á slysadeild.

Fimm dögum síðar mætti maðurinn til skýrslutöku hjá lögreglu og lagði fram kæru í málinu. Hann greindi svo frá að tiltekinn maður hefði tekið hann upp í leigubíl og síðan látið aka með hann að heimili til að ræða við Kristján.

Þegar hann gekk inn í húsið var hann strax kýldur nokkrum sinnum í andlitið. Í kjölfarið hefði hann verið pyntaður í marga klukkutíma. Lýsti hann margháttuðu ofbeldi sem hann varð fyrir. Hefði Kristján krafið hann um hálfa milljón króna, vegna tiltekins atburðar sem væri ástæða frelsissviptingarinnar og líkamsmeiðinganna. Tveir aðrir viðstaddra hefðu jafnframt krafið hann um fé.

Að barsmíðunum loknum hefði einn gerendanna farið með manninn til Reykjavíkur til að tryggja að hann myndi greiða meintar skuldir. Er þangað var komið tókst manninum hins vegar að flýja úr bifreiðinni.

Lögregla telur Kristján mjög hættulegan

Lögregla fór 12. ágúst að umræddu heimili og þar hefði Kristján verið staddur ásamt þremur öðrum. Voru allir handteknir. Við húsleit fannst eitthvað af fíkniefnum, ætluð smjörsýra, haglabyssa, rafbyssa, meint þýfi og sprautunálar. Í húsinu hefði jafnframt mátt sjá blóðdropa á gólfi.

Kristján neitaði í fyrstu sök við skýrslutöku hjá lögreglu. Hann játaði síðar að maðurinn hefði komið í fyrrgreint húsnæði að kvöldi 6. ágúst. Sagðist Kristján hafa skammað hann fyrir að nota nafn sitt og kýlt hann einu sinni.

Lögregla telur að mikil hætta stafi af Kristjáni Markúsi og gæsluvarðhald sé því nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna og fjölda brota, enda eðli brotanna slíkt að það kunni að særa réttarvitund almennings, fái hann að vera frjáls ferða sinna.

Telur lögreglustjóri ljóst að Kristján muni fá fangelsisrefsingu eins og atvikum sé háttað. Það sé og mat lögreglu að hann hafi sýnt af sér einbeittan brotavilja og að hann sé í mikilli neyslu. Brýnt sé að hann sæti gæsluvarðhaldi vegna almannahagsmuna uns málum hans sé lokið. Bendir lögreglustjóri á að Kristján hefur áður hlotið dóma fyrir ofbeldisbrot, sem og önnur brot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert