Áhyggjur af slæmri umræðuhefð í stjórnmálum á Íslandi eru ekki nýjar af nálinni og hafa ýmis gífuryrði verið látin falla í gegnum árin. Oftrú á eigin ágæti og skortur á gagnrýninni hugsun eru á meðal orsakanna. Þetta var á meðal þess sem kom fram á fundi um íslenska stjórnmálaumræðuhefð í gær.
Það var Félag stjórnmálafræðinga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála sem stóðu fyrir fundinum í Háskóla Íslands. Þar tóku til máls Guðni Th. Jóhannesson, lektor í sagnfærði, Hulda Þórisdóttir, lektor í stjórnmálasálfræði, og Þorsteinn Pálsson, fv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins og ritstjóri Fréttablaðsins. Voru þau fengin til að velta því upp hvað hafi einkennt íslenska umræðuhefð í stjórnmálum í gegnum tíðina og upplifun kjósenda af umræðum á vettvangi stjórnmálanna.
Í sínu erindi vék Guðni að því að ekki væri í raun til nein skilgreining á hugtakinu umræðuhefð og að litlar rannsóknir hafi verið gerðar á henni. Áhyggjur af slæmri stjórnmálaumræðu væru þó ekki nýjar af nálinni. Guðni nefndi meðal annars máli sínu til stuðnings pistil sem birtist í dagblaðinu Vesturlandi 9. nóvember árið 1935 um Hannibal Valdimarsson, sem síðar varð forseti Alþýðusambands Íslands og þingmaður, vegna greinar sem hann hafði ritað.
„Ekki 22 heldur 222 vandarhögg daglega þyrfti til kaghýðingar á þessum berstrípaða rógbera, lygara og fúlmenni,“ segir um Hannibal í blaðinu. Sá sem þar hélt um penna dró ekkert úr eftir því sem á leið á pistilinn heldur bætti í og líkti hann Hannibal við nagdýr.
„Svo djúpt sekkur Hannibal í þessari grein sinni, að hann gerist nárotta og nagar þar og nagar með beztu lyzt,“ segir þar.
Guðni vísaði í ýmsar rannsóknir um stjórnmálamenningu í erindi sínu. Þær bentu til þess að Norðurlöndin hefðu á sér það orð að þar væru stundum svokölluð samræðustjórnmál sem hefðu það að leiðarljósi að komast að sameiginlegri niðurstöðu um ákvarðanir. Hins vegar væru vísbendingar um að þetta ætti síður við um Ísland, að hér ríktu frekar stjórnmál átaka en samræðu.
Til væru þeir hér á landi sem hefðu jafnvel ímugust á samræðustjórnmálum. Þau séu eintóm lognmolla og þau taki þann mikilvæga þátt úr stjórnmálunum að menn eigi að takast á og glíma. „Það er ekki samstaða um samstöðustjórnmál,“ orðaði Guðni það.
Þetta gæti meðal annars skýrst af því að engin hefð væri fyrir minnihlutastjórnum hér á landi þar sem stjórnarflokkar þyrftu að reiða sig á hlutleysi annarra flokka til að ná málum í gegn. Á móti mætti nefna að stjórnmálamenn hefðu engu að síður reynslu af því að miðla málum í samsteypustjórnum sem hér tíðkast.
Hulda Þórisdóttir, stjórnmálasálfræðingur, velti upp þeirri spurningu hvernig hægt væri að bæta stjórnmálaumræðuna. Flestir sem tjáðu sig um hana væru sammála um að það væri of áberand á Íslandi að mál væru ekki krufin til mergjar, menn væru fljótir að stökkva ofan í skotgrafirnar og reyndu að koma föstum og jafnvel pólitískt banvænum skotum á andstæðinginn.
Tvö meginstef virðist eiga vel við hér á landi hvað þetta varðar. Annars vegar verði fólk fyrir meiri áhrifum frá umhverfi sínu en það geri sér grein fyrir eða viðurkenni og vel þekktar skekkjur móti þankagang þess. Hins vegar geri smæð og einsleitni samfélagsins það að verkum að mikið sé um persónuleg tengsl og frændsemi og minni þörf hafi verið hér til að taka tillit til skoðana ólíkra hópa en í fjölbreyttari og stærri samfélögum eins og í Bandaríkjunum til dæmis.
Smæðin valdi því einnig að oft skorti á gagnaöflun og undirbúningsvinnu innan stjórnsýslunnar áður en reglur og lög séu sett. Fáar sjálfstæðar rannsóknarstofnanir séu til hér á landi og virðingarleysi gagnvart sérfræðingum virðist nokkuð ríkjandi. Óstöðugleiki væri í stefnumörkun stjórnvalda frá einni ríkisstjórn til annarrar og minna væri um víðtækt samráð hagsmunaaðila hér en á öðrum Norðurlöndum. Allt þetta gerði það að verkum að kerfisbundnar skekkjur í þankagangi eigi greiðari leið inn í stjórnmálaumræðuna.
Hulda sagði Íslendingum væri ekki sérlega tamt að tala á gagnrýninn hátt um hugmyndir almennt. Þeir virtust gera lítið af því að kenna börnunum sínum að færa rök fyrir máli sínu og hugsa gagnrýnt um hlutina.
Helsta skekkjan sem mótaði þankagang þeirra væri oftrúin á þeim sjálfum. Menn ofmætu hæfni sína til að taka ákvarðanir, þeir væru áhugalausir um að staðreyna forsendur skoðanna sinna og hunsuðu vísbendingar um að þeir hefðu ekki rétt fyrir sér. Rannsóknir hafi sýnt að þeir sem hafi meiri trú á sjálfa sig séu ekki líklegri til að hafa rétt fyrir sér. Hins vegar álitu aðrir þá líklegri til að hafa á réttu að standa og því veldust þeir einstaklingar frekar í stjórnunarstöður.
Það væri þessi staðfasta trú fólks á að þeirra eigin skoðanir væru þær einu réttu, að þeir sem eru annarrar skoðunnar séu illa upplýstir, greindarskertir eða illa innrættir sem væru verstu óvinir góðrar stjórnmálaumræðu.
Því lagði Hulda til þrjár leiðir til að bæta umræðuna. Líklega væri nauðsynlegt að efla stjórnsýsluna til að bæta rannsóknir og undirbúningsvinnu fyrir ný lög og reglur, auka þyrfti þjálfun í að hugsa gagnrýnið og þeir sem ræða um stjórnmál þyrftu að gangast við því að þankaskekkja þjaki þá sjálfa og aðra.
Engin ástæða væri til að ætla að ekki væri hægt að færa umræðuna inn á heillavænlegri brautir. Samkvæmt könnunum bæru Íslendingar meira traust til annars fólks en í nánast nokkru öðru Evrópulandi og í fáum löndum væri stjórnmálaáhugi meiri. Þetta sé gott veganesti inn í vegferð að betri umræðu.
„Þá getum við byrja að tala, eða á ég að segja hlusta, af viti,“ sagði Hulda að lokum.
Átakastjórnmál eru ekki endilega slæm í sjálfu en vandinn er að komast hjá því að lýðskrum taki völdin og ýti rökræðu í burtu. Þetta kom fram í máli Þorsteins Pálssonar, fv. ráðherra og ritstjóra Fréttablaðsins, sem tók síðastur til máls.
Hann sagðist ekki trúa því að það væri réttmæt krafa að öll dýrin í skóginum ættu alltaf að vera vinir. Alþingi væri umræðuvettvangur þar sem gagnstæð rök tækjust á, þaðan flyttust þau út í samfélagið og auðvelduðu fólki að mynda sér skoðanir. Sjálfum þætti honum hugsjónaleysi, prinsippsleysi, stærri galli á stjórnmálum nútímans. Menn mættu ekki vera svo skoðanafastir að þeir gætu ekki gert málamiðlanir en eðlilegt jafnvægi þyrfti að vera á milli þess sem stjórnmálamenn lofa, samþykkja í ályktunum og segi í ræðum annars vegar og hins vegar þess sem þeir framkvæmi. Trúverðugleiki tapist ef menn geta ekki staðið við hugsjónir sínar.
Nefndi hann sem dæmi að Vinstri græn hafi talið það ganga næst landráði að samþykkja samning við Alþjóðagjaldseyrissjóðinn á sínum tíma en nokkrum vikum seinna þegar flokkurinn var kominn í ríkisstjórn gerði hann það. Sjálfstæðisflokkurinn hafi fyrir síðustu kosningar talið helsta kosningaloforð Framsóknarflokksins um skuldaniðurfellingar háskalegar en hann hafi svo tekið þátt í að framkvæma það í ríkisstjórn.
Í lok máls síns viðurkenndi Þorsteinn þó ákveðna hræsni upp á sjálfan sig hvað þetta varðaði. Þannig færi hann í vont skap þegar Sjálfstæðisflokkurinn bryti gegn einhverjum hugsjóna sinna.
„En þegar VG gerir það þá fagna ég og finnst sem að stjórnmálaumræðan sé að batna og þroskast til mikilla muna,“ sagði Þorsteinn og uppskar hlátrasköll fundargesta.