Óhófleg gosdrykkjaneysla vandamál

Rannsóknir á Vesturlöndum hafa ítrekað sýnt að fólk með lægri …
Rannsóknir á Vesturlöndum hafa ítrekað sýnt að fólk með lægri tekjur borðar gjarnan næringarsnauðara fæði, og þá einkum minna af hollustuvörum á borð við grænmeti og ávexti, en hinir sem hafi hærri tekjur. AFP

Breytingar á mataræði Íslendinga frá 2002 hafa að mestu leyti verið í hollustuátt. Milli áranna 1990 og 2002 minnkaði fituneysla og hlutfall mettaðra fitusýra og transfitusýra lækkaði, en minni breytingar urðu frá 2002 til 2010-2011. Efnahagur tengist hollustu fæðis á Íslandi.

Óhófleg gosdrykkjaneysla er aftur á móti ennþá ein helsta áskorun í lýðheilsu- og næringarmálum hér á landi, enda fáar fæðutegundir sem sýna jafn eindregna fylgni við offitu og sykraðir drykkir. Þess ber þó að geta að mikill munur er á sykurneyslu eftir aldri. Neyslan er langmest meðal ungs fólks sem einnig drekkur mest af gosdrykkjum.

Þetta hafa landskannanir á mataræði og næringargildi fæðunnar á Íslandi leitt í ljós, en fjallað er um málið í nýjsta tölublaði Læknablaðsins. En í rannsókninni voru bornar saman niðurstöður úr tveimur síðustu landskönnunum, árin 2002 og 2010-2011, og könnuð tengsl hollustu fæðisins við erfiðleika fólks við að ná endum saman. Eins er lýst breytingum í hlutfallslegri skiptingu orkuefna í fæði frá 1990.

Efnaminni einstaklingar borða minn af grænmeti og ávöxtum

Þar kemur fram, að kannanirnar hafi leitt í ljós að minna hafi verið borðað af brauði, kexi og kökum, smjörlíki, farsvörum og snakki og minna drukkið af nýmjólk og sykruðum gosdrykkjum árin 2010-2011 en 2002.

Fólk sem átti erfitt með að ná endum saman 2010-2011 borðaði minna af grænmeti, ávöxtum og grófu brauði og drakk meira af sykruðum gosdrykkjum en hinir sem áttu auðvelt með það.

„Í rannsókn okkar kemur fram að þeir sem eiga erfitt með að ná endum saman borða marktækt minna af hollustuvörum, svo sem grænmeti, ávöxtum og grófu brauði en meira af sykruðum gosdrykkjum og viðbættum sykri en hinir sem betur mega sín. Þessar niðurstöður eru í samræmi við erlendar rannsóknir sem sýna að þeir efnaminni neyta að jafnaði lélegra fæðis en þeir efnameiri. Hins vegar hefur slíkur munur á hollustu eða næringargildi fæðunnar eftir efnahag ekki komið fram áður á Íslandi,“ segir í rannsókninni.

Greint er frá því að rannsóknir á Vesturlöndum hafi ítrekað sýnt að fólk með lægri tekjur borði gjarnan næringarsnauðara fæði, og þá einkum minna af hollustuvörum á borð við grænmeti og ávexti, en hinir sem hafi hærri tekjur. Tekið er fram, að fram til þessa hafi ekki fundist tengsl milli tekna og hollustu fæðunnar á Íslandi, en hins vegar hafi félagsleg staða og menntun ítrekað sýnt jákvæð tengsl.

„Í rannsókn á íslenskum börnum reyndust vera jákvæð tengsl milli félagslegrar stöðu foreldra við ávaxta- og grænmetisneyslu barna þeirra, og eins sýndi könnun á mataræði Íslendinga árið 1990 sterk tengsl milli menntunar og hollustu fæðunnar, einkum meðal karla. Á þeim tíma fundust hins vegar engin marktæk tengsl milli heimilistekna og hollustu fæðunnar, hvorki við næringargildi né val á hollum matvælum,“ segir í rannsókninni.

Heilsusamlegt fæði dýrara en óhollt fæði

Ennfremur er bent á, að rannsóknir hafi sýnt að heilsusamlegt fæði kosti gjarnan meira en óhollara fæði. Orkuþéttar en að öðru leyti næringarsnauðar matvörur á borð við fituríka skyndibita eða sykraða gosdrykki séu til dæmis yfirleitt ódýrari kaloríu fyrir kaloríu en grænmeti eða ávextir. Fólk með lítil efni getur því öðrum fremur freistast til að velja ódýrari saðningu úr vörum með minna hollustugildi.

Einnig er tekið fram, að marg bendi til þess að aukin neysla sykraðra gosdrykkja og eins neysla á orkuþéttu og jafnframt ódýru skyndifæði, eigi stóran þátt í aukinni líkamsþyngd fólks um víða veröld.

Þátttakendur í rannsókninni voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Lokaúrtak var 1.912 manns árið 2010-2011 og 1.934 árið 2002, svarhlutföll 68,6% og 70,6%. Mataræði var kannað með sólarhringsupprifjun. Samanburður á meðalneyslu var metinn með T-prófi og hollusta fæðunnar, eftir því hversu auðvelt eða erfitt þátttakendur áttu með að ná endum saman, með línulegri aðhvarfsgreiningu.

Sykurneyslan er langmest meðal ungs fólks sem einnig drekkur mest …
Sykurneyslan er langmest meðal ungs fólks sem einnig drekkur mest af gosdrykkjum.
Mun meira var borðað af grænmeti, ávöxtum, hafragraut og grófu …
Mun meira var borðað af grænmeti, ávöxtum, hafragraut og grófu brauði 2010-2011 en árið 2002 og eins var lýsisneyslan meiri. AFP
mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka