„Þreyta og uppgjöf er greinileg í hópi lækna og hafa nokkrir þeirra þegar tekið það stóra og erfiða skref að segja upp starfi sínu við spítalann. Við óttumst að fleiri læknar velji sömu leið ef ekki næst að semja um kjarasamninga sem fyrst.“ Þetta kemur fram í ályktun stjórnar læknaráðs Landspítalans sem samþykkt var í vikunni.
Í ályktuninni lýsir stjórn læknaráðsins yfir verulegum áhyggjum af stöðu lækna og áhrifa verkfalls þeirra á starfsemi spítalans.
„Það myndi hafa hörmulegar afleiðingar fyrir starfsemi spítalans og erfitt eða jafnvel ógerlegt að bæta upp þann missi í nánustu framtíð.“
„Stjórn læknaráðs hvetur samningsaðila til að komast að samkomulagi án tafar svo hægt sé að tryggja áframhaldandi mönnun við spítalann og koma í veg fyrir frekari flótta lækna frá spítalanum,“ segir í ályktuninni áður en henni líkur með þessum orðum:
„Framtíð sérhæfðar heilbrigðisþjónustu og Landspítalans er í húfi!“
Stjórn læknaráðs Landspítala lýsir yfir verulegum áhyggjum af stöðu lækna og áhrifa verfalls þeirra á starfsemi spítalans. Samkomulag um kjarasamninga hefur dregist óhóflega á langinn, og virðist sem engin lausn sé í sjónmáli. Verkfall lækna hefur gríðarleg áhrif á starfsemi spítalans. Aðgerðum, rannsóknum og göngudeildarviðtölum er frestað, og öll valstarfsemi liggur niðri á meðan verkfall er. Þjónustan við sjúklinga er því í lágmarki sem seinkar bata og getur hæglega ógnað öryggi þeirra. Enn hertari aðgerðir eru í sjónmáli eftir áramót ef ekki semst fyrir þann tíma.
Samkvæmt könnunum hefur meirihluti almennings skilning á stöðu lækna og styður að komið sé til móts við kröfur þeirra. Heilbrigðisráðherra hefur lýst yfir skilningi og stuðningi við lækna.
Þreyta og uppgjöf er greinileg í hópi lækna og hafa nokkrir þeirra þegar tekið það stóra og erfiða skref að segja upp starfi sínu við spítalann. Við óttumst að fleiri læknar velji sömu leið ef ekki næst að semja um kjarasamninga sem fyrst. Það myndi hafa hörmulegar afleiðingar fyrir starfsemi spítalans og erfitt eða jafnvel ógerlegt að bæta upp þann missi í nánustu framtíð.
Stjórn læknaráðs hvetur samningsaðila til að komast að samkomulagi án tafar svo hægt sé að tryggja áframhaldandi mönnun við spítalann og koma í veg fyrir frekari flótta lækna frá spítalanum.
Framtíð sérhæfðar heilbrigðisþjónustu og Landspítalans er í húfi!