„Þetta er hreinlega ástarljóð til mannsins míns. Ég vildi að það væri mjög skýrt að þarna væri karlmaður að syngja til karlmanns,“ segir leikarinn og söngvarinn Felix Bergsson um lag sitt, Augun þín, en myndband við lagið má sjá hér að ofan.
Felix sendi í sumar frá sér plötu sem heitir Borgin og er lagið á henni. „Platan mín er unnin þannig að ég fékk lög frá ýmsum vinum mínum og valdi úr þau sem höfðuðu helst til mín. Lagið við Augun þín er eftir Einar Tönsberg eða Eberg eins og hann kallar sig,“ segir Felix sem semur ljóðið sem ástarsöng til eiginmanns síns, Baldurs. Í ljóðinu vísar Felix í Vísur Vatnsenda-Rósu en þær voru einmitt sungnar þegar Felix og Baldur giftu sig í lok árs 1999.
Felix segir að lagið sé um hversdagslega hamingjutilfinningu. „Þegar maður er búinn að vera með einhverjum í 20 ár eru hlutirnir kannski orðnir hversdagslegri, við erum bara að sötra kaffi og njóta sólarupprásarinnar og sitja saman í þögninni. Ég er að draga upp litla mynd af hamingjunni eins og hún lítur við mér.“
Felix ákvað að gera myndband við lagið sem er tekið upp á heimili hans og Baldurs. „Ég komst í kynni við Jón Grétar Jónasson en hann er ungur kvikmyndagerðarmaður sem útskrifast frá Kvikmyndaskóla Íslands á næsta ári. Ég hafði ákveðnar hugmyndir um myndbandið og hann gekk mjög glaður inn í það með mér. Þetta er mjög persónulegt myndband, hlutirnir okkar sjást, útsýnið okkar og lífið okkar. Ég var samt ekkert að blanda Baldri eða öðrum inn í það. Þetta er meira svona minn hugarheimur og mínar tilfinningar frá mínum sjónarhóli. En þetta er ákveðin opnun og mér fannst það mjög gaman.“
Aðspurður hvort hann hafi áður gerst svona persónulegur í list sinni segist Felix hafa gert það á vissan hátt.
„Ég hef rætt málefni samkynhneigðra í gegnum tíðina og rætt um okkur Baldur og okkar fjölskyldu til þess að sýna að hér væri nú bara venjulegt fjölskyldulíf. En ég hef kannski ekki áður talað beint svona um ástartilfinningar. En ég er voðalega sáttur við útkomuna.“